Hoppa yfir valmynd

Ný lög um Fjarskiptastofu taka gildi

Tungumál EN
Heim

Ný lög um Fjarskiptastofu taka gildi

1. júlí 2021

Í dag, 1. júlí 2021, taka gildi ný lög um Fjarskiptastofu. Leysa þau af hólmi eldri lög um Póst- og fjarskiptastofnun.  Helstu nýmæli laganna eru nýtt nafn á stofnunina, ákvæði um netöryggissveitina, ákvæði er varða öryggi og almannavarnir, skýrari heimildir til að greina stöðu fjarskiptaneta og gera útbreiðsluspár fyrir háhraðanet og ný ákvæði um framþróun, rannsóknir, þróunarstarf og nýsköpun svo eitthvað sé nefnt. 

Lagaumhverfi sem stofnunin vinnur eftir  þróast hratt. Ný lög um net- og upplýsingaöryggi mikilvægra innviða, hin svo kölluðu NIS lög, tóku gildi þann 1. september sl. Í kjölfar þess var netöryggissveitin CERT-IS gerð að sjálfstæðri skipulagseiningu og starfsemi hennar efld verulega. Að óbreyttu munu afleiðingar NIS laganna á rekstur stofnunarinnar verða þær að starfsemi stofnunarinnar mun tvöfaldast á þremur árum. Innan ESB er nú unnið að NIS2 sem útvíkkar verulega gildissvið og nálgun NIS.
Jafnframt samþykkti Alþingi ný lög um landslénið .is og lög sem fela í sér að eftirlit með traustþjónustum er flutt frá Neytendastofu til Fjarskiptastofu. Að lokum samþykkti Alþingi lög um flutning eftirlits með póstþjónustu frá Póst- og fjarskiptastofnun til Byggðastofnunar. Sá þáttur í starfsemi stofnunarinnar hefur verið nokkuð áberandi í fjölmiðlum þó svo að umsvif vegna eftirlits með pósti hafi verið innan við 5% af starfsemi stofnunarinnar gegnum tíðina. 

Á vorþingi lá einnig fyrir Alþingi heildarendurskoðun fjarskiptalaga. Áttu þau að leysa af hólmi núverandi fjarskiptalög sem að grunni til eru frá 2002. Lög þessi byggja á tilskipun ESB um fjarskipti sem nefnist the European Electronic Communications Code, eða Kóðinn eins og þau hafa verið nefnd hérlendis. Ekki náðist að afgreiða þau lög fyrir þinglok. Mörg og mikilvæg ný ákvæði er að finna í frumvarpi að nýjum fjarskiptalögum og hefur stofnunin þegar hafið undirbúning innleiðingar þeirra. Stofnunin telur brýnt að ný fjarskiptalög verði afgreidd sem fyrst.  
Í heild má segja að áhrif þessara breytinga séu þær að áhersla á ýmiss konar stafræna tækni og öryggi eykst verulega. Einnig er aukin áhersla á framþróun og nýsköpun, m.a. í ljósi fjórðu iðnbyltingarinnar. Það breytir ekki því, að sem fyrr verður einnig lögð áhersla á þróun fjarskiptamarkaðarins og eflingu samkeppni, með aukinni áherslu á innleiðingu nýrrar tækni á hagkvæman hátt. Þetta endurspeglast m.a. í endurskoðaðri framtíðarsýn stofnunarinnar: 

„Fjarskiptastofa er virkur samstarfsaðili um framþróun öruggs stafræns samfélags og eflingu samkeppni„

Í dag er jafnframt birt nýtt skipulag Fjarskiptastofu ásamt nýju merki. Endurskoðun skipulagsins hefur staðið yfir í rúmt ár og tekur mið af ofangreindum breytingum á lagaumhverfi stofnunarinnar ásamt þeim áherslubreytingum sem umhverfið krefst á hverjum tíma. 

Skipulagið greinist nú í 5 svið; netöryggissveitin CERT-IS, stafrænt öryggi, stjórnsýsla, fjarskiptainnviðir auk reksturs. 

Helstu verkefni netöryggissveitarinnar CERT-IS er ástandsvitund um stöðu netöryggismála ásamt atvikameðhöndlun þegar netatvik verða. Með sjálfstæðri skipulagseiningu netöryggissveitarinnar er verið að tryggja sjálfstæða úrvinnslu upplýsinga og atvika í fullum aðskilnaði frá öðrum sviðum. 

Hlutverk stafræns öryggis er að hafa eftirlit með net- og upplýsingaöryggi stafrænna grunnvirkja og veitendum stafrænnar þjónustu sem og öryggi og virkni almennrar fjarskiptaþjónustu. Sviðið sinnir samhæfingar- og ráðgjafahlutverki  gagnvart öðrum eftirlitsstjórnvöldum í því skyni að stuðla að samræmdri framkvæmd NIS-laganna.  Að auki kemur það í hlut stafræns öryggis að hafa eftirlit með traustþjónustum. 

Fjarskiptainnviðasvið ber ábyrgð á skipulagi auðlinda fjarskipta (tíðna og númera) og úthlutun heimilda fyrir þær auðlindir. Einnig viðhefur sviðið eftirlit með ljósvakanum sem felur í sér mælingar, viðbragð og úrvinnslu truflana. Með kortlagningu og greiningum á núverandi og áætlunum innviðum fjarskipta og tengdum innviðum stuðlar sviðið að uppbyggingu innviða í samstarfi við stjórnvöld og markaðsaðila.

Stjórnsýslusvið samræmir stjórnsýslumál stofnunarinnar ásamt því að leiða samkeppnis- og neytendamál.  Innan sviðsins fara fram markaðsgreiningar ásamt álagningu kvaða á þá aðila markaðarins sem hafa umtalsverða markaðshlutdeild.

Hlutverk rekstrarsviðs er að tryggja samfelldan og straumlínulagaðan rekstur og að hann sé samkvæmt vottuðum gæðaferlum stofnunarinnar. 

 

Til baka