Hoppa yfir valmynd

Brot gegn banni við að staðsetja búnað notenda í almennu fjarskiptaneti

Tungumál EN
Heim

Brot gegn banni við að staðsetja búnað notenda í almennu fjarskiptaneti

8. júní 2021


Í ákvörðun nr. 8/2021 er það niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) að IMC Ísland ehf. (IMC) hafi gerst brotlegt við 1. mgr. 43. gr. fjarskiptalaga þegar áskrifendur erlends fjarskiptafélags voru látnir upplýsa um staðsetningu sína með merkjasendingum úr íslensku númeri án vitundar þeirra og samþykkis. 

IMC hafði fengið úthlutað númeraröð úr íslenska númeraskipulaginu frá PFS. Umræddu númeri hafði síðan verið ráðstafað með samningi til annars félags sem m.a. stundar að staðsetja notendur í almennum fjarskiptanetum. Þrátt fyrir að fjarskiptin (merkjasendingarnar) sem voru til skoðunar í málinu áttu sér stað í öðru landi þá heyrir notkun númera sem að PFS hefur úthlutað undir íslenska lögsögu og íslensk lög. 

Það skal tekið fram að notendur geta í sumum tilvikum haft gagn af þjónustum sem staðsetur fjarskiptabúnað þeirra en samkvæmt 1. mgr. 43. gr. fjarskiptalaga er slíkt einungis leyfilegt hafi notandinn veitt upplýst samþykki sitt fyrir því. Undanþágu frá þessu skilyrði er að finna í næstu málsgrein ákvæðisins sem felur í sér að fjarskiptafyrirtæki geti sent upplýsingar um staðsetningu búnaðar án samþykkis notanda til viðurkenndra aðila sem annast almenna neyðarþjónustu í þeim tilgangi að bregðast við neyðarköllum. 

Að mati PFS voru ekki nein haldbær gögn lögð fram sem renndu stoðum undir skýringar IMC um að samþykki notenda væri til staðar fyrir vinnslu staðsetningarupplýsinga, líkt og áskilið er, né að viðsemjandi IMC væri viðurkenndur neyðarþjónustuaðili sem mætti vinna með slíkar upplýsingar án samþykkis. PFS leit svo á að IMC bæri ábyrgð á því að óheimilaðar merkjasendingar væru að berast úr númerinu í endabúnað notenda og þar með hafi félagið brotið gegn 1. mgr. 43. gr. fjarskiptalaga. 

 

Til baka