Hoppa yfir valmynd

PFS synjar IMC Íslandi ehf. um tíðniúthlutanir

Tungumál EN
Heim

PFS synjar IMC Íslandi ehf. um tíðniúthlutanir

3. júní 2021

""Í lok mars og um miðjan maí s.l. bárust Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) umsóknir frá fjarskiptafyrirtækinu IMC Ísland ehf. um úthlutun tíðna fyrir háhraða farnetsþjónustu. Tóku umsóknirnar til tíðna á 700, 2600 og 3600 MHz tíðnisviðunum.

Í ákvörðun PFS nr. 9/2021 kemur fram að tíðnirófið innan lögsögu Íslands sé verðmæt og takmörkuð náttúruauðlind sem stofnunin hafi umsjón með f.h. ríkisins samkvæmt 14. gr. fjarskiptalaga. Samkvæmt 9. gr. fjarskiptalaga sé PFS heimilt að takmarka fjölda tíðniúthlutana til að tryggja skilvirka nýtingu á tíðnisviðinu. Getur þetta m.a. komið til vegna þess að hagkvæm og skilvirk farnetsþjónusta þurfi tíðnisvið af ákveðinni stærð til að geta náð fram tilteknum afköstum, gæðum og gagnaflutningshraða. PFS hefur beitt þessari heimild hvað varðar 700, 2600 og 3600 MHz tíðnisviðin.

Það væri álit PFS að þau tíðnisvið sem skilgreind eru fyrir háhraða farnet, einkum 5G þjónustu, væru almennt mjög eftirsótt og umfram það sem framboð leyfir. Þetta ætti við um allar þær tíðnir sem umsóknir IMC tækju til, þ.m.t. millikaflann á 2600 MHz tíðnisviðinu. PFS teldi því ekki fært að ráðstafa þessum tíðnum samkvæmt umsókn frá aðila, heldur bæri að gæta jafnræðis og úthluta þessum gæðum samkvæmt opnu úthlutunarferli með samkeppnisaðferð.

Þá fór stofnunin jafnframt yfir sérstök sjónarmið sem leiddu til synjunar á umsóknum félagsins. Í fyrsta lagi uppfyllti IMC ekki forsendur fyrir úthlutun á tíðniheimild á 3,6 GHz tíðnisviðinu eins og þær voru markaðar í opnu samráði vorið 2020. Í öðru lagi hefði 700 MHz tíðnisviðið verið haldið eftir til mögulegrar úthlutunar fyrir neyðarfjarskiptakerfi (PPDR), en framtíðarráðstöfun tíðnisviðsins yrði endurmetin á næstunni. Í þriðja lagi að notkun á 2600 MHz tíðnisviðinu væri að valda ákveðinni fjarskiptatruflun sem stofnunin ynni að því að uppræta. Það tíðnisvið gæti ekki komið til frekari úthlutunar fyrr en búið væri að koma trufluninni niður fyrir tiltekin mörk.   

 

Til baka