Hoppa yfir valmynd

PFS birtir ákvörðun nr. 7/2021 vegna óumbeðinna fjarskipta Happdrætti DAS

Tungumál EN
Heim

PFS birtir ákvörðun nr. 7/2021 vegna óumbeðinna fjarskipta Happdrætti DAS

21. maí 2021

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur með ákvörðun sinni nr. 7/2021 lagt á stjórnvaldssekt á Happdrætti DAS að fjárhæð 300.000 krónur vegna brota á 5. mgr. 46. gr. fjarskiptalaga. Ákvæðið segir að virða beri bannmerkingu í símaskrá. Tilgangur þess er að vernda einkalíf áskrifenda og sporna við ágangi þeirra aðila sem að markaðssetja vörur sínar með símhringingum. Í ákvörðuninni kemst PFS að þeirri niðurstöðu að Happdrætti DAS hafi brotið gegn ákvæðinu með markaðsátaki sínu þegar ekki var virt bannmerking áskrifenda í símaskrá í að a.m.k. fimm tilvikum. Happdrætti DAS hefur þegar tilkynnt til PFS að gerðar hafa verið ráðstafanir til að bæta úr verklagi svo að ekki verði hringt í bannmerkta einstaklinga. 

Þetta er í fyrsta sinn sem stofnunin leggur á stjórnvaldssekt vegna óumbeðinna fjarskipta en lengst af hefur stofnunin ekki haft heimild til að beita viðurlögum í þessum málaflokki.  Á því var breyting á síðasta ári við gildistöku laga nr. 21/2020, um breytingu á ýmsum lögum vegna samvinnu stjórnvalda á evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd. Með þeim tók gildi 74. gr. b. fjarskiptalaga sem segir að ef brotið sé gegn ákvæðum 46. gr. laganna þá gildi tiltekin ákvæði laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, um málsmeðferð og heimildir stofnunarinnar. Póst- og fjarskiptastofnun hefur því öðlast ákveðnar framfylgdarheimildir vegna óumbeðinna fjarskipta en þar má nefna vettvangskönnun og prufukaup, álagningu sekta og dagsekta og kröfu um lögbann.  

 
 

Til baka