Hoppa yfir valmynd

PFS samþykkir gjaldskrá Mílu á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína

Tungumál EN
Heim

PFS samþykkir gjaldskrá Mílu á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína

26. apríl 2021

""

Með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 5/2021 samþykkir stofnunin kostnaðargreiningu Mílu á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína.

Fallist var á beiðni Mílu um að gjaldskráin fyrir stofnlínuhluta leigulína verði að þessu sinni breytt í heild sinni í samræmi við breytingar á undirliggjandi kostnaði fyrir stofnnetið í stað þess að uppfæra kostnaðarlíkön fyrir mismunandi þjónustur. Með þessu er ekki hróflað við þeirri uppbyggingu á gjaldskrám sem nú eru í gildi og samræmi milli gjaldskráa á þessum markaði. PFS fellst á að gjaldskráin sé uppfærð á þennan hátt núna enda er hætt við því að ósamræmi geti skapast í verði þjónustuþátta vegna þeirra breytinga sem hafa átt sér stað undanfarið. PFS telur hins vegar rétt að við næstu endurskoðun á gjaldskrá á þessum markaði verði kostnaðarlíkanið tekið til endurskoðunar í heild sinni. Míla skal leggja fram endurskoðað kostnaðarlíkan hjá PFS á næsta ári.

Hækkunin á gjaldskránni nær einungis til mánaðargjalda sem munu hækka um 2,59% en einskiptis gjöld, mánaðargjöld fyrir Sync-Ethernet og tengiskil haldast óbreytt. 

Nýju heildsölugjaldskrá Mílu á þessum markaði má finna í viðauka II og tekur hún gildi þann 1. júní næstkomandi en Míla hefur þegar sent út tilkynningu um gildistökuna með tilskildum fyrirvara.

Frumdrög PFS að ákvörðun um heildsölugjaldskrá fyrir stofnlínuhluta leigulína fór í innanlandssamráð sem stóð frá 29. október til 13. nóvember 2020. Athugasemdir bárust frá Nova hf. og Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. og eru þær tilgreindar í viðauka III ásamt andsvari Mílu og afstöðu PFS. 

Drög að ákvörðuninni, voru send Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og öðrum eftirlitsstofnunum á EES-svæðinu til samráðs þann 26. mars sl. Samráðinu lauk þann 26. apríl sl. og hefur PFS móttekið álit ESA sem fylgir með í viðauka IV við ákvörðun þessa. PFS vísar í álit ESA varðandi athugasemdir þeirra.

Ákvörðun PFS nr. 5/2021 - Endurskoðun á heildsölugjaldskrá Mílu fyrir stofnlínuhluta leigulína

Viðauki I - WACC fyrir árið 2018

Viðauki II - Gjaldskrá Mílu á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína

Viðauki III - Athugasemdir úr innanlandssamráði til birtingar

Viðauki IV - Álit ESA

Til baka