Hoppa yfir valmynd

Póst- og fjarskiptastofnun ákvarðar alþjónustuframlag til handa Íslandspósti ohf.

Tungumál EN
Heim

Póst- og fjarskiptastofnun ákvarðar alþjónustuframlag til handa Íslandspósti ohf.

19. febrúar 2021

Almennt

Póst- og fjarskiptastofnun (hér eftir PFS) hefur tekið ákvörðun um framlag til handa Íslandspósti (hér eftir ÍSP) vegna alþjónustu sem fyrirtækið veitti á árinu 2020. 

Þann 1. janúar 2020 féll einkaréttur ríkisins niður, og þar með ÍSP, á dreifingu bréfa undir 50 gr.  Um leið féll niður sérstök heimild, í eldri lögum, til að láta það óhagræði sem var í kerfum ÍSP vegna alþjónustu vera innifalið í kostnaðargrunni félagsins innan einkaréttar. 

Samkvæmt lögum um póstþjónustu eiga allir landsmenn rétt á alþjónustu sem uppfyllir tilteknar gæðakröfur og er á viðráðanlegu verði, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um póstþjónustu. 

Með ákvörðun PFS nr. 13/2020 var komist að þeirri niðurstöðu að ÍSP myndi, án útnefningar ekki veita póstþjónustu á tilteknum stöðum á landinu og/eða veita breytta þjónustu ef fyrirtækið gæti lagt hefðbundin viðskiptasjónarmið til grundvallar. Miðað við þessa niðurstöðu myndu um 15% póstfanga þannig ekki fá skilgreinda lágmarksþjónustu. 

   Heimili  Vinnustaður  Samtals  Hlutfall
 Virk  116.489  14.409 130.898  85%
 Óvirk    19.195    3.883   23.078  15%
 Samtals  135.684  18.292  153.976  100%

Sú þjónusta sem í dag skiptir hvað mestu máli er dreifing á pökkum innan alþjónustu en lengi vel skipaði bréfið þann sess. Þótt bréfasendingar skipti enn þann dag í dag verulegu máli, hefur breytt samskiptamynstur og aukin rafræn þjónusta ýmiskonar dregið úr mikilvægi bréfsins og hlutfall þess í heildarsendingum farið sífellt minnkandi og stefnir allt í að sú þróun muni halda áfram á komandi árum. Þjónusta tengd dreifingu á pökkum mun hins vegar líklega halda áfram að aukast. 

Umsókn Íslandspósts

Í umsókn félagsins eru eftirfarandi þjónustuflokkar:

  • Innlend bréf 0-2 kg.
  • Innlendir pakkar 0-10 kg
  • Innlend rekjanleg bréf

Einnig sótti ÍSP um framlag vegna þeirrar skyldu sem hvílir á fyrirtækinu að vera með sömu gjaldskrá innan alþjónustu um land allt, sbr. 2. mgr. 17. gr. laga um póstþjónustu, sem og að tilteknar póstsendingar fyrir blinda eiga að vera gjaldfrjálsar.   

Í samræmi við ofangreinda ákvörðun PFS nr. 13/2020 er alþjónustukostnaði félagsins skipt upp í eftirfarandi flokka:

  • Hreinn kostnaður vegna landpóstadreifingar.
  • Hreinn kostnaður vegna dreifingar í þéttbýliskjörnum með undir 750 fyrirtækjum/heimilum. 
  • Hreinn kostnaður vegna sömu gjaldskrár um land allt fyrir vörur innan alþjónustu.
  • Hreinn kostnaður vegna blindrasendinga. 

Til samræmis við þessa skiptingu er hreinn kostnaður ÍSP 509 millj. kr. á árinu 2020, sbr. eftirfarandi tafla:

Tafla nr. 3- Hreinn kostnaður 2020 (alþjónusta). Fjárhæðir í millj. kr.

Landpóstar  -257
 Svæði undir 750  -181
 Blindrasendingar   -15
 Samræmd gjaldskrá  -126
 Samtals  -579
 Ávöxtunarkrafa   -17
 Hagræði vegna pakkar 11-20 kg.    30
 Markaðsávinningur    30  
 Hagræðingarkrafa    27
 Samtals hreinn kostnaður  -509

 

Ákvörðun PFS  staðfestir þannig réttmæti þess varúðarframlags sem ÍSP var veitt með ákvörðun PFS nr. 29/2019 upp á 250 millj. kr. og dregst sú fjárhæð frá 509 millj. kr.

Í ákvörðun stofnunarinnar er einnig vikið að því kostnaðarmati sem fram kemur í greinargerð með lögum um póstþjónustu, sem byggir m.a. á þeim greiningum sem áður hafa verið gerðar á alþjónustukostnaði ÍSP, af PFS, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Copenhagen Economics. Niðurstaða PFS í þeirri ákvörðun sem hér birtist er um margt sambærileg, enda er ávallt verið að nálgast sama viðfangsefnið, þ.e. að greina hreinan kostnað alþjónustuveitanda við að veita þjónustu á þeim stöðum, þar sem ekki er hægt að veita hana á viðskiptalegum grunni.  Kostnaðurinn skiptist síðan eftir ákveðnum skiptireglum niður á einstaka vöruflokka ÍSP, þ.e. bréf og pakka. 

Til viðbótar við þennan hefðbundna kostnað vegna alþjónustu, sem einkum er tilkominn vegna dreifingar á óvirkum markaðssvæðum koma nú einnig greiðslur vegna kvaða tengdar verðlagningu á þjónustu innan alþjónustu sem og að nú er kostnaður vegna blindrasendinga greindur sérstaklega. Þá er í ákvörðun PFS einnig vakin athygli á því að engin greining virðist hafa farið fram af hálfu þingsins um mögulegar fjárhagslegar afleiðingar af kvöð um sömu gjaldskrá um land allt. 

Um ósanngjarna byrði

Einnig var það niðurstaða PFS að hreinn kostnaður ÍSP vegna alþjónustu væri ósanngjörn byrði á félaginu og væri hún óbætt muni það hafa veruleg áhrif á rekstrargetu fyrirtækisins, samkeppnismöguleika og geti þannig stofnað efnahag þess í hættu, sbr. 3. mgr. 12. gr. laga um póstþjónustu. Ætti þetta einkum við ef hinn hreini kostnaður muni verða viðvarandi á næstu árum, án þess að það komi til beinnar greiðslu til að bæta félaginu hann upp með einhverjum hætti.

Um endurskoðun

Að óbreyttum lögum um póstþjónustu má gera ráð fyrir að ríkið komi til með að þurfa að greiða framlag til handa ÍSP á næstu árum. En eins og fram kemur í ákvörðun stofnunarinnar er verið að greiða fyrir þjónustu sem fyrirtæki myndu almennt ekki veita ef hefðbundin viðskiptasjónarmið væru lögð til grundvallar. Útreikningar á hreinum kostnaði byggja á kostnaðarlíkani félagsins og afkomu á þeim landssvæðum sem talin eru óvirk markaðssvæði, ásamt kostnaði vegna samræmdrar gjaldskrár og kostnaði vegna gjaldfrjálsra sendingar fyrir blinda og sjónskerta.

Kostnaðarbókhald ÍSP á að endurspegla á hverjum tíma rétta kostnaðarhlutdeild þeirra vöru sem félagið býður en miðað er við að þjónusta innan alþjónustu beri að mestu kostnað vegna dreifikerfisins, en þjónusta utan alþjónustu beri viðbótarkostnað í samræmi við notkun á dreifikerfinu.

Miklar breytingar hafa átt sér stað bæði í innra og ytra rekstrarumhverfi ÍSP á undanförnum árum, einkaréttur felldur niður, mikil fjölgun pakkasendinga, fækkun bréfasendinga, alþjónustuskylda vegna pakka innanlands færð úr 0-20 kg í 0-10 kg og ný kvöð um sömu gjaldskrá um land allt vegna pakka svo eitthvað sé nefnt. Allar þessar breytingar gera það m.a. að verkum að kostnaðarhlutdeild vegna dreifikerfis er að færast frá bréfasendingum yfir til pakkasendinga. Nauðsynlegt er því að endurmeta kostnaðarþátttöku vöruflokka innan líkansins almennt. Endurmatinu skal vera lokið fyrir 1. september 2021 í samræmi við 8. töl. ákvörðunarorða í ákvörðun PFS nr. 13/2020, þar sem fjallað er um lengd útnefningar og endurskoðun á einstökum ákvæðum hennar.

Reglur um ríkisstyrki

Í ákvörðun stofnunarinnar er einnig að finna umfjöllun um hvort framlagið sé í samræmi við SGEI- ákvörðunina sem og Altmark- dóminn og er það mat PFS að svo sé. 

Mótvægisaðgerðir

Í ákvörðun PFS er bent á að stjórnvöld geta ávallt gripið til tiltekinna mótvægisaðgerða til að minnka kostnað ríkisins af alþjónustu, ef þau svo kjósa. Gildir það jafnt um tilteknar útfærslur á þjónustunni, t.d. tíðni dreifingar, rýmri kvaðir í tengslum við afhendingu póstsendinga á miðlægum afhendingarstöðum og/eða breytingar á kvöðum tengdum gjaldskrám innan alþjónustu með viðeigandi laga- og reglugerðarbreytingum.  

Ákvörðun PFS nr. 1/2021Um framlag til handa Íslandspósti ohf. vegna alþjónustu á árinu 2020

Viðaukar I og II

Til baka