Hoppa yfir valmynd

Lokaáfangi verkefnisins Ísland ljóstengt í undirbúningi

Tungumál EN
Heim

Lokaáfangi verkefnisins Ísland ljóstengt í undirbúningi

3. febrúar 2021

Fjarskiptasjóður undirbýr nú, fyrir hönd ríkisins, lokaúthlutanir á styrkjum til sveitarfélaga á grundvelli verkefnisins Ísland ljóstengt sem er tímabundið landsátak stjórnvalda í ljósleiðarauppbyggingu í dreifbýli utan markaðssvæða.

Í skilmálum vegna umsóknar kemur m.a. fram:

"Ísland ljóstengt er tímabundið landsátak stjórnvalda til uppbyggingar sveitarfélaga á ljósleiðarakerfum í dreifbýli utan markaðssvæða. Fyrirliggjandi samningar og samþykkt tilboð fjarskiptasjóðs ná þegar til langflestra styrkhæfra staða í dreifbýli landsins. Fjarskiptasjóður undirbýr nú fyrir hönd ríkisins lokaúthlutanir á styrkjum á grundvelli verkefnisins.

Hér er einkum horft til landsvæða með styrkhæfum byggingum. Síður er horft til stakra bygginga á svæðum þar sem ljósleiðari hefur áður verið lagður eða sem mjög dýrt yrði að tengja með ljósleiðara. Allar gildar umsóknir verða þó metnar, þrátt fyrir þessar almennu áherslur. Fjarskiptasjóður áskilur sér rétt til þess að nota aðrar valaðferðir en áður og mun því meta og taka sjálfstæða afstöðu til hverrar umsóknar.

Umsóknarfyrirkomulag 2021

A-hluti

Um er að ræða n.k. forval þar sem áhugasöm sveitarfélög sýna fram á nauðsynlegan undirbúning fyrir styrkta ljósleiðarauppbyggingu. Í skjalinu „Umsóknargögn Ísland ljóstengt 2021“ eru umbeðnar upplýsingar tilgreindar. Sveitarfélög, sem að mati fjarskiptasjóðs skila inn ásættanlegum gögnum í Ahluta, eiga kost á þátttöku í B-hluta.

B-hluti

Um er að ræða eiginlega styrkumsókn. Einungis þarf að skrá fjölda staða sem sótt er um styrk fyrir og heildarstyrkupphæð. Hverju sveitarfélagi verður heimilt að senda inn allt að 6 sjálfstæðar styrkumsóknir, t.d. ef landfræðilegar aðstæður eru þannig að eðlilegt sé að skipta ljósleiðarauppbyggingu í áfanga og kostnaður við tengingu staða er mismunandi eftir áföngum. Hægt verður að senda inn umsókn vegna hvers áfanga fyrir sig og skal auðkenna þær umsóknir með númeri. Sveitarfélög geta jafnframt sótt um allt að þrjár mismunandi styrkupphæðir vegna hvers verkáfanga. Sendi sveitarfélag inn þrjár misháar styrkbeiðnir vegna sama verkáfanga sem inniheldur sömu staði, þá getur fernt gerst:

  • Þrjár styrkbeiðnir koma til greina og samþykkir sveitarfélagið væntanlega hæsta styrkinn.
  • Tvær lægri styrkbeiðnirnar koma til greina og samþykkir sveitarfélagið væntanlega hærri styrkinn.
  • Lægsta styrkbeiðnin kemur einungis til greina og samþykkir sveitarfélagið væntanlega þann styrk.
  • Engin styrkbeiðni kemur til greina og málið nær ekki lengra.

Hugmyndin er sú að sveitarfélag geti t.a.m. ákveðið hæstu styrkbeiðni sem æskilegt framlag ríkisins og lægstu styrkbeiðni sem lágmarks framlag ríkisins til að sveitarfélag geti skuldbundið sig til að hefja framkvæmdir. "

Þess má geta að fyrirliggjandi samningar fjarskiptasjóðs og sveitarfélaga ná þegar til flestra styrkhæfra bygginga í dreifbýli landsins.

Móttöku umsóknargagna vegna A-hluta lýkur 1. mars 2021. Nánari upplýsingar eru í skilmálum og umsóknargögnum á vef Stjórnarráðsins.

Til baka