Hoppa yfir valmynd

PFS gerir ekki athugasemdir við áform Íslandspósts ohf. um niðurfellingu viðbótarafslátta fyrir magnpóst

Tungumál EN
Heim

PFS gerir ekki athugasemdir við áform Íslandspósts ohf. um niðurfellingu viðbótarafslátta fyrir magnpóst

6. janúar 2021

""
Með bréfi, dags. 12. maí 2020, tilkynnti Íslandspóstur ohf. (hér eftir ÍSP) um breytingar á þeim afsláttarkjörum fyrir magnpóst, sem verið hafa í gildi frá árinu 2012.
 
Samkvæmt, 2. mgr. 18. gr. laga um póstþjónustu nr. 98/2019, skal tilkynna um breytingar á verði og skilmálum um magnpóst með að lágmarki 30 daga fyrirvara. Alþjónustuveitandi skal fyrir sömu tímamörk senda Póst- og fjarskiptastofnun (hér eftir PFS) fullnægjandi rökstuðning fyrir þeim breytingum sem gerðar eru.
 
PFS er heimilt, sbr. 3. mgr. 18. gr. laganna, að yfirfara útreikninga alþjónustuveitanda og getur stofnunin eftir atvikum kveðið á um breytingar á tilkynntu verði ef útreikningar alþjónustuveitanda eru ekki réttir eða gefa ekki tilefni til þeirrar hækkunar sem tilkynnt var. Einnig er sérstaklega tiltekið að stofnuninni sé heimilt að samþykkja og/eða synja beiðni um gjaldskrárbreytingu að hluta eða í heild og að hún hafi 30 virka daga til að bregðast við tilkynningum um breytingu á gjaldskrá.
 
Í samráði sem stofnunin boðaði til bárust ítarlegar athugasemdir frá hagsmunaaðilum vegna fyrirhugaðra breytinga ÍSP. 

Með ákvörðun PFS nr. 7/2020, frestaði stofnunin síðan gildistöku nýrra skilmála um magnpóst. Vísaði stofnunin m.a. í fjárhagslega hagsmuni málsaðila, forsögu og umfang málsins.  

Með ákvörðun PFS nr. 16/2020, sem birt var aðilum þann 30. desember 2020 hefur stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að ekki séu forsendur til að gera athugasemdir við breytingar ÍSP á gjaldskrá félagsins vegna magnpósts.

Byggir sú niðurstaða m.a. á þeim breytingum sem gerðar voru á reglum um útreikninga á sérstakri gjaldskrá fyrir magnpóst, með lögum nr. 98/2019 um póstþjónustu. En ekki er lengur gerð krafa um sjálfstæða kostnaðargreiningu af hagræði félagsins af magnviðskiptum. Í stað hennar gildir almenna reglan í 3. mgr. 17. gr. laganna.

PFS hefur eftirlit með bókhaldslegum aðskilnaði og kostnaðarbókhaldi félagsins, sbr. 20. gr. laga um póstþjónustu. 

Samkvæmt kostnaðarbókhaldi félagsins hefur afsláttarsvigrúm ÍSP farið minnkandi og er nú svo komið að heildarafsláttur til söfnunaraðila er orðin meiri en afsláttarsvigrúm kostnaðarbókhaldsins leiðir fram.

Kostnaðarbókhald félagsins styður því ekki lengur við, eins og það gerði áður, umfang þeirra afslátta sem ÍSP hefur veitt allt frá árinu 2012. Engin rök standa því til þess á grundvelli þess kostnaðarbókhalds sem félagið heldur, og er skylt að halda, að gera athugasemdir við tilkynningu ÍSP um breytingar á afsláttarkjörum félagsins gagnvart söfnunaraðilum og öðrum stórum sendendum.  

Kostnaðarbókhald félagsins réttlætir þannig með beinum hætti þær fyrirætlanir ÍSP um nauðsyn þess að gerðar séu breytingar á fyrirliggjandi afsláttarkjörum. Fullnægjandi rökstuðningur liggur því fyrir þeim breytingum sem ÍSP hyggst gera á gjaldskrá félagsins um magnpóst, sbr. 2. mgr. 18. gr. laganna. Ekki voru því efnislegar forsendur fyrir því að stofnunin gerði kröfur um úrbætur á gjaldskrá félagsins á grundvelli 7. mgr. 17. gr. laganna. 

Um gildistöku á breytingum ÍSP á magngjaldskrá félagsins fer eftir 2. mgr. 18. gr. laganna.

 

Til baka