Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun PFS um ítrekað brot Símans hf. gegn bannákvæði 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga felld úr gildi

Tungumál EN
Heim

Ákvörðun PFS um ítrekað brot Símans hf. gegn bannákvæði 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga felld úr gildi

16. nóvember 2020

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur með úrskurði sínum í máli nr. 7/2019, frá 6. nóvember s.l., fellt úr gildi ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 27/2019 um ítrekað brot Símans hf. gegn bannákvæði 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga.

Í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 27/2019 var komist að þeirri niðurstöðu að Síminn hefði ítrekað brot sitt gegn bannákvæði 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlaga sem PFS hafði komist að niðurstöðu um í ákvörðun nr. 10/2018, sem nú er til meðferðar hjá Landsrétti. 

Niðurstaða PFS í ákvörðun 27/2019 byggði á að með því að skilyrða OTT lausn Símans við tiltekinn myndlykil sem væri seldur af fjarskiptahluta Símans hefði fjölmiðlaveita Símans enn verið að beina viðskiptum viðskiptamanna sinna að tengdu fjarskiptafyrirtæki og lagði PFS kr. 9.000.000,- stjórnvaldssekt á Símann með stoð í 4. mgr. 54. gr. fjölmiðlalaga.

Hins vegar kærði Síminn hf. ákvörðunina og hefur úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála nú komist að niðurstöðu. Að áliti nefndarinnar er um að ræða íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun er felur í sér staðfestingu á áframhaldandi broti kæranda þrátt fyrir að óumdeilt sé að kærandi hafi brugðist við ákvörðun PFS nr. 10/2018 og gert breytingar á þjónustu sinni. Gera yrði ríkar kröfur til rökstuðnings slíkra ákvarðana og gæta meðalhófs og varkárni við túlkun á matskenndum lagaákvæðum sem væru íþyngjandi og hefðu í för með sér beitingu stjórnsýsluviðurlaga, svo sem ætti við um 5. mgr. 45. gr., sbr. 3. og 4. mgr. 54. gr., fjölmiðlalaga. Um þetta segir úrskurðarnefnd m.a. eftirfarandi:

„Til þess að unnt sé að fallast á niðurstöðu PFS í hinni kærðu ákvörðun, hefði þurft að liggja fyrir mun ítarlegri rökstuðningur fyrir því af hverju tiltekinn myndlykill sé talinn hluti fjarskiptaþjónustu kæranda og hvernig aðrar OTT lausnir séu frábrugðnar í tæknilegu tilliti. Telur úrskurðarnefndin hina kærðu ákvörðun þannig skorta viðhlítandi skýrleika og rökstuðning, en líkt og að framan er rakið verður að gera afar ríkar kröfur til þess þegar um er að ræða íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir sem jafnframt leiða til beitingar stjórnvaldssekta.“

Sjá úrskurð úrskurðarnefndarinnar í heild:

Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 7/2019 - Kæra Símans á ákvörðun PFS nr. 27/2019

 

Til baka