Hoppa yfir valmynd

Samráðsskjal vegna alþjónustu í pósti - Frestur framlengdur til 7. ágúst

Tungumál EN
Heim

Samráðsskjal vegna alþjónustu í pósti - Frestur framlengdur til 7. ágúst

12. júní 2020

Með bréfi samgönguráðuneytisins þann 11. nóvember 2019 var PFS falið, í samræmi við 1. mgr. 11. gr. laga um póstþjónustu nr. 98/2019, að útnefna alþjónustuveitanda frá og með 1. janúar 2020. 

Vegna þess hversu skammur tími var til stefnu var það mat PFS að nauðsynlegt væri að taka bráðbirgðaákvörðun og var Íslandspósti falið að sinna þeirri þjónustu sem fellur undir alþjónustu sem og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands, sbr. ákvörðun PFS nr. 29/2019.

Ákvörðun 29/2019 mun gilda þar til málsmeðferð samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga um póstþjónustu nr. 98/2019 hefur farið fram en þar er kveðið á um að við val á þjónustuveitanda til að veita alþjónustu skuli viðhafa opið, gagnsætt og hlutlægt ferli þar sem gætt er jafnræðis. 
Í samræmi við þetta lagaákvæði er nú birt samráðsskjal við hagsmunaaðila þar sem farið er yfir þjónustu innan alþjónustu, virk og óvirk markaðssvæði, alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á sviði póstþjónustu, reglur um útreikninga á kostnaði vegna alþjónustu og gjaldskrár- og fjárhagseftirlit PFS með væntanlegum alþjónustuveitanda, sem og þá frumniðurstöðu PFS að útnefna Íslandspóst sem fyrirtæki með alþjónustuskyldur hér á landi.

Hér með er hagsmunaaðilum gefinn kostur á að koma með athugasemdir og/eða ábendingar við greiningu stofnunarinnar.
Þess er óskað að athugasemdirnar hafi borist stofnuninni fyrir 10. júlí 2020. Sérstök athygli er vakin á spurningum eftir hvern kafla.

ATHUGIÐ AÐ FRESTUR TIL UMSAGNA HEFUR VERIÐ FRAMLENGDUR TIL 7. ÁGÚST

Vefkort yfir virk markaðssvæði.
Á vefkortinu er hægt að breyta um bakgrunnskort, taka út / bæta við gagnalögum og fá skýringar á gagnalögum á kortinu með því að velja hnappa í efra vinstra horni. Hægt er að leita að stað eða heimilisfangi með því að nýta glugga í efra hægra horni. Til að losna við glugga sem birtist við að velja hnapp þarf að velja sama hnapp aftur. Tölur fyrir lögheimili og vinnustaði fyrir skilgreint svæði eru birtar með því að smella á viðkomandi svæði. Ekki eru til tölur fyrir öll svæði, eins og þau eru skilgreind, frá Íslandspósti en tölur þaðan eru samtölur fyrir viss póstnúmer.

Samráðskjal vegna útnefningar alþjónustuveitanda í póstþjónustu

Viðauki I - Virk og óvirk markaðssvæði
Viðauki II - Virk markaðssvæði
Viðauki III - Yfirlit yfir spurningar

Til baka