Hoppa yfir valmynd

Óskýrleiki um hvenær aukaþráður innanhússfjarskiptalagna getur talist vera ónothæfur – Ákvörðun PFS felld úr gildi að hluta

Tungumál EN
Heim

Óskýrleiki um hvenær aukaþráður innanhússfjarskiptalagna getur talist vera ónothæfur – Ákvörðun PFS felld úr gildi að hluta

6. maí 2020

Með ákvörðun sinni nr. 21/2019 komst PFS að þeirri niðurstöðu að Míla ehf. hefði brotið gegn 4. mgr. 7. gr. reglna nr. 1111/2015 um innanhússfjarskiptalagnir, eins og ákvæðinu var breytt með reglum nr. 421/2018, með því að taka úr sambandi tengdan þráð Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. í fjarskiptainntaki tiltekinna húseigna í stað þess að nýta lausa aukaþræði sem þar voru til staðar. Hafði Míla borið fyrir sig ýmsum ástæðum fyrir því að aukaþráðurinn hafi ekki verið nýttur og gat PFS í flestum tilvikum ekki fallist á þær.

Ein af þessum ástæðum var að aukaþráður hafi í tiltekinni húseign verið of stuttur til að hægt hefði verið að nota hann. Míla ehf. kærði niðurstöðu PFS hvað varðar þessa tilteknu húseign.

Nú hefur úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála (ÚFP) fallist á kröfu Mílu og breytt ákvörðunarorðum ákvörðunar PFS nr. 21/2019 til samræmis við það, þ.e. er með því að fjarlægja tilvísun í umrædda húseign í upptalningu um þau tilvik sem Míla ehf. braut gegn 4. og 5. mgr. 7. gr. reglna um innanhússfjarskiptalagna.

Að áliti ÚFP er 4. mgr. 7. gr. reglna um innanhússfjarskiptalagnir skýr og ótvíræð um að óheimilt sé að aftengja tengdan þráð í fjarskiptainntaki ef þar er til staðar laus aukaþráður. Óumdeilt væri að Míla ehf. hafi aftengt tengdan þráð þrátt fyrir laus aukaþráður hafi verið til staðar í þeirri húseign sem kærumálið laut að. Hins vegar hafi ekki legið fyrir hversu stuttur eða langur lausi aukaþráðurinn hafi verið. Var það álit ÚFP að ekki væri hægt að beita 4. mgr. 7. gr. reglnanna með svo fortakslausum hætti, þ.e. án tillits til þess hvort að lausi aukaþráðurinn væri of stuttur til að vera nothæfur.

Að áliti ÚFP eru reglur um innanhússfjarskiptalagnir ekki skýrar um það hvenær laus aukaþráður innanhússfjarskiptalagna sé ónothæfur vegna skemmda eða ónógrar lengdar. Taldi ÚFP tilefni fyrir PFS að taka reglurnar til endurskoðunar hvað þetta varðar. Nefndin féllst ekki á kröfu Mílu ehf. um að fenginn yrði óháður sérfræðilegur ráðgjafi til að leggja almennt mat á fullnægjandi lengd lausra aukaþráða innanhússfjarskiptalagna í fjarskiptainntaki. Slíkt væri fremur hlutverk PFS í krafti reglusetningarheimildar sinnar.

PFS getur tekið undir með ÚFP um að 4. mgr. 7. gr. reglna um innanhússfjarskiptalagnir mætti vera skýrari um það hvenær laus aukaþráður innanhússfjarskiptalagna sé ónothæfur, sem þannig gæti réttlætt að aftengja þann tengda þráð sem fyrir er. PFS hyggst á næstunni efna til samráðs um þessa reglubreytingu og mögulega aðrar til frekari skýringa á reglum nr. 1111/2015 um innanhússfjarskiptalagnir, sem að sumu leyti eru, eðli málsins samkvæmt, nokkuð tæknilega flóknar.          

Úrskurður ÚFP nr. 6/2019

 

Til baka