Hoppa yfir valmynd

Afturköllun á tíðniheimild Yellowmobile B.V staðfest

Tungumál EN
Heim

Afturköllun á tíðniheimild Yellowmobile B.V staðfest

3. apríl 2020

Með úrskurði sínum í kærumáli nr 5/2019 hefur úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála (ÚFP) staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 18/2019 frá 23. ágúst 2019. Með þeirri ákvörðun var tíðniheimild Yellowmobile B.V á 2600 MHz tíðnisviðinu afturkölluð vegna vanefnda félagsins við að hefja nýtingu og þjónustu á tíðninni. Félagið hafði fengið tíðniheimildina úthlutaða þann 7. júlí 2017 og skyldi það hefja notkun á tíðninni innan 12 mánaða frá útgáfudegi tíðniheimildarinnar. Í 3. mgr. 2. gr. tíðniheimildarinnar var sérstaklega tekið fram að með notkun væri átt við að fjarskiptaþjónustan sé virk og standi almenningi til boða með aðgengilegum hætti í áskrift og/eða frelsisnotkun. Tilgangur skilmála þessa efnis er að uppfylla kröfur fjarskiptalaga um skilvirka nýtingu tíðnirófsins, en góð nýting tíðna er forsenda skilvirkrar uppbyggingar farneta.

Þrátt fyrir framlengdan frest Yellowmobile til 1. nóvember 2018 og í reynd fyrir frekari tækifæri til að hefja þjónustu langt fram eftir árinu 2019 tókst félaginu ekki að efna skyldu sína og var tíðniheimild félagsins loks afturkölluð s.l. haust. Það var á hinn bóginn skilningur félagsins að það hefði uppfyllt skilyrði umrædds skilmála um notkun tíðninnar þar sem að það hefði þann 12. júní 2019 sett upp einn sendi á Suðurlandsbraut í samstarfi Símann hf. sem sendi út radíómerki á umræddu tíðnisviði. Þannig hafi almenningi staðið til boða opin og gjaldfrjáls netþjónusta.

Í úrskurði sínum gat ÚFP ekki fallist á þennan skilning félagsins, en um þetta segir í úrskurðinum:

„Telur úrskurðarnefndin að merking þeirra hugtaka sem notuð eru í tíðniheimildinni, sér í lagi þau sem er að finna í 3. mgr. 2. gr. heimildarinnar, sé engum vafa undirorpin. Það geti ekki talist virk eða aðgengileg þjónusta þótt kærandi hafi kveikt á einum sendi í starfsemi sinni á liðlega tveimur árum. Þar með telur úrskurðarnefndin að tíðnir samkvæmt tíðniheimildinni hafi ekki verið komnar í notkun á þeim tíma er hin kærða ákvörðun var tekin. Telur úrskurðarnefndin að meira þurfi að koma til og er það mat hennar að fjarskiptafyrirtæki verði að bregðast við athugasemdum eftirlitsaðila með trúverðugum hætti. Telur nefndin að háttsemi og aðgerðir kæranda bendi til þess að honum hafi verið ljóst að hann gengi gegn lögmætum tilmælum og athugasemdum PFS í máli þessu. „

Þá var það jafnframt niðurstaða ÚFP sú að PFS hafi veitt Yellowmobile sanngjarnan tíma til að uppfylla skilyrði tíðniheimildarinnar. Samskipti aðila um tveggja ára skeið hafi miðað að því að félagið gæti nýtt tíðniheimildina. Þá tiltekur ÚFP að í ljósi ítrekaðra frestana og breytinga á áætlunum félagsins að geri nefndin ekki athugasemdir við að PFS hafi dregið þá ályktun að loforð og áætlanir Yellowmobile væru ótrúverðugar og ekki í samræmi við skyldur félagsins.


Það var því niðurstaða ÚFP að staðfesta ákvörðun PFS nr. 18/2019 frá 23. ágúst 2019.

Úrskurður ÚFP nr. 5 2019 í heild sinni.

 

Til baka