Hoppa yfir valmynd

Gjald á erlendar póstsendingar

Tungumál EN
Heim

Gjald á erlendar póstsendingar

13. desember 2019

Með lögum nr. 23/2019 var sett inn ný heimild í lög um póstþjónustu til að setja sérstakt gjald á viðtakanda erlendar póstsendingar. 

Um ástæður og tilefni hins nýja gjalds sagði m.a. í greinargerð með frumvarpinu:

„Breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu fela m.a. í sér að heimila rekstraraðila að setja gjaldskrá fyrir erlendar póstsendingar sem á að mæta raunkostnaði við sendingarnar. Mikill ágreiningur hefur verið um endastöðvargjöld á alþjóðlegum vettvangi, einkum og sér í lagi milli útflutnings- og innflutningslanda pósts, en talsverð rekstrarvandræði hrjá marga póstrekendur sem sinna alþjónustu.“ Einnig var tiltekið að breytingarnar væru nauðsynlegar til að mæla skýrt fyrir um að íslensk póstlög gangi framar alþjóðaskuldbindingum á sviði póstmála og að taka beri mið af óbættum raunkostnaði við gjaldtöku vegna erlendra pakkasendinga, óháð ákvæðum um endastöðvarsamninga.

Íslandspóstur (ÍSP) tilkynnti stofnuninni með bréfi, dags. 16. maí 2019, að félagið hygðist setja á hið nýja gjald og að hið nýja gjald legðist á allar sendingar sem bæru aðflutningsgjöld og skiptist þannig:

1) Sendingar frá löndum innan Evrópu 400 kr.
2) Sendingar frá löndum utan Evrópu 600 kr. 


Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur nú yfirfarið þær kostnaðarforsendur sem og röksemdir félagsins fyrir skiptingu gjaldsins pakka frá löndum innan Evrópu og utan Evrópu. Jafnframt hafa forsendur félagsins fyrir því að leggja gjaldið einungis á tollskyldar vörur verið yfirfarnar.

Það er niðurstaða PFS, að þau sendingargjöld sem ÍSP lagði á móttakendur póstsendinga sé innan þeirra viðmiða sem fram koma í 4. mgr. 16. gr., eins og hún er skýrð í greinargerð með ákvæðinu. 

ÍSP skal senda PFS upplýsingar er varða erlendar sendingar með reglubundnum hætti skv. nánari fyrirmælum PFS, en stofnunin hyggst taka umrædd gjöld næst til skoðunar að eigin frumkvæði á fyrrihluta árs 2021 eða fyrr sé talin þörf á. Þessi fyrirætlan PFS breytir hins vegar ekki þeirri skyldu sem hvílir á ÍSP, að aðlaga gjaldið að undirliggjandi rekstri fyrirtækisins á hverjum tíma ef forsendur fyrir gjaldinu hafa breyst verulega á tímabilinu, t.d. hækkun á endastöðvagjöldum, eða aðrar þær breytingar í rekstri fyrirtækisins sem verða til þess að kostnaður fyrirtækisins af dreifingu erlendra sendinga breytist frá því sem hann er í dag.

Jafnframt kemur fram í greinargerð stofnunarinnar að með hinu nýja gjaldi sé ekki verið að leysa fortíðarvanda félagsins vegna taps á erlendum sendingum, sem fjallað var um í ákvörðun PFS nr. 14/2019. 

Sjá nánar meðfylgjandi greinargerð Póst- og fjarskiptastofnunar

Fylgiskjöl með greinargerð PFS

Til baka