Hoppa yfir valmynd

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 29/2019 um skyldu Íslandspósts ohf. til að veita alþjónustu um land allt.

Tungumál EN
Heim

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 29/2019 um skyldu Íslandspósts ohf. til að veita alþjónustu um land allt.

12. desember 2019

Með bréfi samgönguráðuneytisins þann 11. nóvember sl. var PFS falið, í samræmi við 1. mgr. 11. gr. laga um póstþjónustu nr. 98/2019, að útnefna alþjónustuveitanda frá og með 1. janúar 2020. 

Vegna þess hversu skammur tími var til stefnu var það mat PFS að nauðsynlegt væri að taka bráðbirgðaákvörðun og er Íslandspósti falið að sinna þeirri þjónustu sem fellur undir alþjónustu sem og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands, enda enginn annar aðili sem gæti tekist á hendur þessar skuldbindingar með svo skömmum fyrirvara.  

Ákvörðunin mun gilda þar til málsmeðferð samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga um póstþjónustu nr. 98/2019 hefur farið fram en þar er kveðið á um að við val á þjónustuveitanda til að veita alþjónustu skal viðhafa opið, gagnsætt og hlutlægt ferli þar sem gætt er jafnræðis. Í samræmi við þetta lagaákvæði verður birt samráðsskjal á fyrri hluta næsta árs og allri málsmeðferð lokið á árinu 2020. Í samráðinu verður m.a. fjallað um nauðsyn þess að útnefna fyrirtæki með alþjónustuskyldur sem og hversu víðfeðm útnefningin skal vera. Fjallað verður um gæði þjónustu, mögulegar þjónustubreytingar og forsendur fyrir greiðslu ríkisins á kostnaði vegna alþjónustu, sbr. 6. mgr. 12. gr. laga um póstþjónustu nr. 98/2019. 

Í ákvörðun stofnunarinnar, í samræmi við ákvörðun ráðuneytisins, er einnig kveðið á um framlag til handa Íslandspósti, að upphæð 250 millj. kr. vegna alþjónustu fyrirtækisins á árinu 2020, sem kemur til greiðslu í byrjun ársins 2020. Framlagið mun verða greitt út með þeim fyrirvara að ef metin alþjónustubyrði verður lægri mun koma til endurgreiðslu af hálfu Íslandspósts.   

Sjá nánar ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 29/2019

Til baka