Hoppa yfir valmynd

Endurskoðaðar leiðbeinandi reglur Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppniseftirlitsins um meðferð og úrlausn fjarskipta- og póstmála

Tungumál EN
Heim

Endurskoðaðar leiðbeinandi reglur Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppniseftirlitsins um meðferð og úrlausn fjarskipta- og póstmála

10. desember 2019

Þann 20. nóvember s.l. voru birtar í Stjórnartíðindum leiðbeinandi reglur Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppniseftirlitsins um meðferð og úrlausn fjarskipta- og póstmála nr. 1001/2019. Um er að ræða endurskoðun á reglum sama efnis nr. 265/2001. 

Á fjarskipta- og póstmörkuðum gilda sérstakar reglur er varða samkeppni. Á póstmarkaði hefur eftirlitið einkum lotið að afmörkun á alþjónustu og framkvæmd einkaréttar á póstdreifingu sem hefur áhrif á samkeppnisumhverfið á meðan reglur um samkeppni á sviði fjarskipta hafa haft þann tilgang að opna fyrir samkeppni á fjarskiptastarfsemi sem áður var í ríkiseinokun. Eftirlit Póst- og fjarskiptastofnunar samkvæmt þessum reglum hefur því að mestu leyti verið í formi markaðsmótunar sem horfir fram á við, þ.e. með því að skilgreina umfang alþjónustu, samþykkja gjaldskrár og í fjarskiptum að greina mismunandi undirmarkaði fjarskipta m.t.t. hvort þörf sé áð að leggja kvaðir á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk með það að markmiði að efla virka samkeppni. Í lögfræði er slíkt eftirlit sem horfir fram á við kallað ex ante eftirlit. 

Framagreint eftirlit er frábrugðið því eftirliti sem í megnatriðum er ætlað að stöðva brot á samkeppnislögum, en slíkt eftirlit er kallað ex post eftirlit. Hér á landi og víðast í Evrópu er þessu eðlisólíka eftirliti komið fyrir hjá sitthvorri eftirlitstofnuninni, þ.e. hér Póst- og fjarskiptastofnun, hvað varðar eftirlit fram á við, og Samkeppniseftirlitinu, hvað varðar eftirlit sem horfir tilbaka og tekur á einstökum brotum. 

Þegar eðli eftirlitsins er skoðað m.t.t. framangreindra sjónarmiða er sjaldgæft að upp komi tilvik sem valda vafa undir verksvið hvorrar stofnunarinnar þau falla. Markaðgreiningar og álagning kvaða, sem er eitt helsta eftirlitsverkefni Póst- og fjarskiptastofnunar á sviði samkeppni, eru til að mynda frumkvæðismál sem unnin eru eftir ítarlegum ákvæðum reglugerðar og leiðbeininga sem um það gilda. Inngrip Samkeppniseftirlitsins á fjarskiptamarkaði er aftur á móti aðallega tilkomið vegna kvartana um tiltekin brot á samkeppnislögum. 

Til að taka af allan vafa um mögulega óljós valdmörk á milli Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppniseftirlitsins hafa þessar tvær stofnanir sett sér leiðbeinandi reglur um verkaskiptingu á milli þeirra sem eiga að geta leyst úr einstaka markatilvikum. Eins og fyrr segir voru reglurnar fyrst settar árið 2001. Hafa þær reynst vel og í aðalatriðum staðist tímans tönn. Hins vegar var talið tímabært að taka reglurnar til endurskoðunar, m.a. í ljósi reynslunnar og þróunar sem hefur orðið í verklagi stofnananna tveggja við meðferð mála á síðustu tæpum tveimur áratugum.  

 


 

Til baka