Hoppa yfir valmynd

Íslenskur fjarskiptamarkaður í tölum - Tölfræðiskýrsla PFS fyrir fyrri hluta ársins 2019 komin út

Tungumál EN
Heim

Íslenskur fjarskiptamarkaður í tölum - Tölfræðiskýrsla PFS fyrir fyrri hluta ársins 2019 komin út

28. nóvember 2019

ATH - Skýrslan uppfærð 3.12.2019. 

Tvisvar á ári safnar Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) upplýsingum frá skráðum fjarskiptafyrirtækjum hér á landi um ýmsar stærðir í rekstri og þjónustu á sviði fjarskipta. Upp úr þeim tölum vinnur stofnunin tölfræðiskýrslur sem sýna upplýsingar um helstu stærðir og fyrirtæki á íslenskum fjarskiptamarkaði. Markmiðið er að bæta upplýsingagjöf og auka gagnsæi á þessum markaði og eru skýrslur PFS í samræmi við þær skýrslur sem systurstofnanir PFS í nágrannalöndum okkar gefa út. 

Skýrslan sem nú er birt sýnir tölfræði um fjarskiptamarkaðinn á fyrri helmingi ársins 2019. Hún inniheldur tölulegar upplýsingar um helstu þætti á markaðnum og samanburð við stöðuna á árunum á undan. Skýrslunni er skipt upp eftir fastanetinu, farsímanetinu, föstum internettengingum og veltu og fjárfestingu á fjarskiptamarkaði. 

Meðal helstu tölulegu upplýsinga um íslenska fjarskiptamarkaðinn árið 2019 má nefna: 

Fjöldi áskrifenda með heimasíma fækkar milli ára og mínútum fækkar um 15%. Netsímaáskrifendum (VoIP) hefur fjölgað með aukinni lagningu ljósleiðara og niðurlagningu á eldra heimasímakerfi (PSTN kerfi) Símans. Síminn og Vodafone eru stærstu fyrirtækin á markaði fyrir heimasíma með um 93% hlutdeild.  

Gagnamagn á farsímaneti heldur áfram að aukast en það hefur hefur verið mjög mikil aukning undanfarin ár með innleiðingu á 4G. Í farsímanetum er hlutfallslega meira gagnamagn notað í símum en í öðrum tækjum sem eru eingöngu fyrir gagnanotkun, t.d. spjaldtölvum. 

Internettengingum hefur fjölgað lítillega þegar á heildina er litið, en mikil aukning er í ljósleiðaratengingum samhliða fækkun í xDSL tengingum. Um mitt ár 2019 voru ljósleiðaratengingar 59% allra internettenginga. 

Áskrifendur með sjónvarp yfir IPTV eru 96.160 á miðju ári 2019, en voru 100.504 á miðju ári 2018 og hefur því fækkað um 4%. 

Velta á fjarskiptamarkaði á fyrri hluta ársins 2019 var svipuð og árið á undan en tekjur af heimasíma og farsíma  fóru lækkandi en aftur á móti hafa tekjur af gagnaflutningum og internetþjónustu ásamt öðrum tekjum farið hækkandi. 

Fjárfesting á fjarskiptamarkaði er aðallega í fastaneti, m.a. vegna lagningar ljósleiðara. 

Helstu stærðir á fjarskiptamarkaði má sjá í töflunni hér fyrir neðan sem einnig er að finna í skýrslunni sjálfri. Ásamt skýrslunni er birt Excel skjal með bakgrunnsupplýsingum skýrslunnar í töflum og myndum.

 

Tölfræðiskýrslan í heild  - ATH - Skýrslan uppfærð 3.12.2019
 
Excel skjal með bakgrunnsupplýsingum skýrslunnar í töflum og myndum - ATH -  Uppfært 3.12.2019

Til baka