Hoppa yfir valmynd

Niðurstöður úttekta PFS á varaafli farnetsrekenda á náttúruvásvæði Öræfajökuls

Tungumál EN
Heim

Niðurstöður úttekta PFS á varaafli farnetsrekenda á náttúruvásvæði Öræfajökuls

23. desember 2020

Fjarskiptavirki


Póst- og fjarskiptastofnun birtir í dag þrjár systurákvarðanir er varða úttekt stofnunarinnar á varaafli farnetsrekenda á náttúruvásvæði Öræfajökuls. Úttektirnar voru framkvæmdar sumarið 2019. Vegna mikilla anna hjá stofnuninni hefur úrvinnsla á niðurstöðum úttektanna dregist.

Póst- og fjarskiptastofnun gegnir víðtæku eftirlitshlutverki á sviði fjarskipta hér á landi. Fer stofnunin með umsjón framkvæmdar fjarskiptalaga nr. 81/2003 og hefur eftirlit með starfsemi fjarskiptafyrirtækja. Eitt af því sem fellur undir eftirlitshlutverk stofnunarinnar er að tryggja að fjarskiptafyrirtæki viðhafi ráðstafanir til að tryggja heildstæði og öryggi almennra fjarskiptaneta. Getur stofnunin viðhaft frumkvæðisathuganir á starfsemi þeirra og krafið þau um upplýsingar sem nauðsynlegar þykja við athugun einstakra mála.

Gæði og virkni varafls gegnir þýðingarmiklu hlutverki við að tryggja virkni farnetsþjónustu hér á landi þar sem ýmsar náttúruvár geta steðjað að. Er skemmst að minnast hins mikla óveðurs sem reið yfir landið í desember 2019 þar sem reyndi á varaafl og aðra raffæðingu fjarskiptainnviða. Erfitt getur þó verið að spá fyrir um hvar óvæntar náttúruvár, líkt og óveður geta gengið yfir landið. Stofnunin hefur því, við forgagnsröðun á eftirliti sínu, litið til skilgreindra náttúruvásvæða. Trygg fjarskiptaþjónusta getur skipt sköpum við að koma boðum til íbúa slíkra svæða sem og annarra sem þar eiga leið um þegar til náttúruvár kemur. Póst- og fjarskiptastofnun hefur áður leitast við að skoða gæði varaafls fjarskiptasenda á náttúruvásvæði Kötlu en nú var athyglinni beint að náttúruvásvæði Öræfajökuls.

Póst- og fjarskiptastofnun framkvæmdi prófanir á varaafli Nova ehf., Símans hf. og Sýnar hf. sumarið 2019 á umræddu svæði. Aðferðafræði prófunarinnar var tvíþætt. Í fyrsta lagi var litið til þess hvort að varaafl væri nægjanlegt til að halda uppi þjónustu ef til straumrofs kæmi í tvöfaldan rýmingartíma fyrir umrætt svæði. Skemmst er frá því að segja að í tilfelli eins sendastaðar stóðst varaaflið ekki þetta viðmið og var umræddum rekstraraðila gert að bæta þar úr. Í öðru lagi var litið til þess hvort að varaafl væri nægjanlegt til að halda uppi þjónustu miðað við áætlanir félagsins. Hér getur verið um mjög mismunandi tímalengd að ræða. Í ákveðnum tilfellum getur einnig verið að sérstök varaaflsstöð sé einnig til staðar fyrir sendastaðinn. Niðurstöður sýndu að almennt eru gæði varaafls með þeim hætti að það stenst viðmið sem félögin hafa sett sér. Þó mátti í einstaka tilfellum greina dvínandi gæði eftir því sem leið á prófanir. Þegar svo bar undir var hlutaðeigandi rekstraraðilum gert að fylgjast náið með gæðum varaaflsins.

Vert er að geta þess að Neyðarlínan tekur þátt í úttektinni að eigin frumkvæði.

Póst- og fjarskiptastofnun vinnur nú að áhættumati fyrir mikilvæga fjarskiptainnviði hér á landi í samræmi við stefnu stofnunarinnar um öryggi og virkni fjarskiptainnviða. Í þeirri vinnu verður m.a. aflað upplýsinga um varnir fjarskiptainnviða gegn straumrofi. 

Ákvörðun PFS nr. 32/2019 - Úttekt Póst- og fjarskiptastofnunar á varaafli Nova ehf. á náttúruvásvæði Öræfajökuls

Ákvörðun PFS nr. 33/2019 - Úttekt Póst- og fjarskiptastofnunar á varaafli Sýnar hf. á náttúruvásvæði Öræfajökuls

Ákvörðun PFS nr. 14/2020 - Úttekt Póst- og fjarskiptastofnunar á varaafli Símans hf. á náttúruvásvæði Öræfajökuls

Til baka