Hoppa yfir valmynd

PFS hefur ákvarðað ný heildsöluverð fyrir lúkningu símtala í farsímanetum og föstum almennum talsímanetum

Tungumál EN
Heim

PFS hefur ákvarðað ný heildsöluverð fyrir lúkningu símtala í farsímanetum og föstum almennum talsímanetum

24. október 2019

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvarðanir sínar nr. 22/2019 um heildsöluverð fyrir lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum (markaður 1/2016) og nr. 23/2019 um heildsöluverð fyrir lúkningu símtala í farsímanetum (markaður 2/2016). Í ákvörðunum er kveðið á um að niðurstaða verðsamanburðar sem stofnunin hefur framkvæmt verði grundvöllur hámarksverða fyrir lúkningu símtala í farsímanetum og föstum almennum talsímanetum á árinu 2020.  

Samkvæmt niðurstöðu PFS sem birtar eru í þessum ákvörðunum mun verðið fyrir lúkningu í fastanetum standa í stað en verðið fyrir lúkningu í farsímanetum hækkar um 6%. 

Ákvörðun nr. 22/2019 - Heildsöluverð fyrir lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum 

Ákvörðun þessi byggir á ákvörðun PFS nr. 22/2016, dags. 23. desember 2016, um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum. Kveðið er á um í hinni nýju ákvörðun að heildsöluverð fyrir lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum skuli vera að hámarki 0,12 kr./mín. fyrir tímabilið 1. janúar 2020 til 31. desember 2020. Núverandi lúkningarverð er 0,12 kr. á mínútu og því munu verð fyrir lúkningu símtala í fastanetinu ekki breytast um næstu áramót. 

Ákvörðun nr. 23/2019 - Heildsöluverð fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum 

Ákvörðun þessi byggir á ákvörðun PFS nr. 20/2015, dags. 31. júlí 2015, um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum. Kveðið er á um í hinni nýju ákvörðun að heildsöluverð fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum skuli vera að hámarki 1,02 kr./mín. fyrir tímabilið 1. janúar 2020 til 31. desember 2020. Núverandi lúkningarverð, 0,96 kr. á mínútu, mun gilda áfram óbreytt til og með 31. desember 2019. 

Á tímabilinu 9. ágúst til 30. ágúst sl. fór fram innanlandssamráð um niðurstöðu PFS um heildsöluverð fyrir lúkningu símtala í farsímanetum og föstum almennum talsímanetum. Engar athugasemdir bárust í samráðinu. Þá voru drög að ofangreindum ákvörðunum send Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og öðrum eftirlitsstofnunum á EES-svæðinu til samráðs þann 20. september sl. Álit ESA barst stofnuninni 18. október sl. og gerði stofnunin ekki athugasemdir við ákvörðunardrög PFS. Álit ESA fylgir í viðauka við ofangreindar ákvarðanir. 

Viðauki I - Gengistafla 2019

Viðauki II - Álit ESA

Til baka