Hoppa yfir valmynd

Heimilt að krefja neytendur um endurgreiðslu á ónýttum afslætti umfram hámarksbinditíma viðskiptasamninga

Tungumál EN
Heim

Heimilt að krefja neytendur um endurgreiðslu á ónýttum afslætti umfram hámarksbinditíma viðskiptasamninga

27. júní 2019

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur úrskurðað í máli nr. 1/2019 þar sem felld er úr gildi ákvörðun PFS nr. 27/2018 varðandi tilboð Nova hf. á Apple TV tæki með ljósleiðara. 

Tilboð Nova fól í sér að kaupendur Apple TV tækis fengu afslátt af því ef þeir væru áskrifendur að ljósleiðaraþjónustu hjá Nova. Sá afsláttur var hærri eftir því sem kaupandi var lengur í áskrift en afslátturinn var mestur ef kaupandi var með áskrift í 12 mánuði. Ef að kaupandi vildi hætta með ljósleiðaraáskrift hjá Nova innan 12 mánaða þurfti hann að endurgreiða hluta af þeim afslætti sem hann hafði fengið af tækinu í réttu hlutfalli við þá mánuði sem hann átti eftir af tímabilinu.

Nova kærði ákvörðun PFS þess efnis að umrætt tilboð Nova stríddi gegn 2. mgr. 37. gr. fjarskiptalaga en ákvæðið kveður á um að óheimilt sé í samningi að kveða á um lengri binditíma áskrifenda en sex mánuði. Niðurstaða PFS í hinni kærðu ákvörðun skýrðist einkum af því mati stofnunarinnar að gjald (hlutfallsleg endurgreiðsla afsláttar) sem tilkomið væri vegna þjónustuflutnings yrði ótvírætt hindrun í vegi neytenda til að skipta um þjónustuveitanda. Að mati PFS gekk tilboð Nova gegn markmiði 2. mgr. 37. gr. um hreyfanleika neytenda. 

Úrskurðarnefndin féllst ekki á svo rúma túlkun PFS á ákvæðinu. Nefndin vísaði m.a. til þess að þó að skilmálarnir sem tilboð Nova kvað á um hafi vissulega að ákveðnu leyti tengst áskriftarsamningi kaupanda voru þeir tilkomnir vegna kaupa á tiltekinni vöru. Að mati nefndarinnar tæki ákvæði 2. mgr. 37. gr. fjarskiptalaga samkvæmt orðanna hljóðan einungis til þess tilviks að kveðið væri á um lengri binditíma en sex mánuði í áskriftarsamningi. Úrskurðarnefndin taldi að hin kærða ákvörðun ætti sér ekki fullnægjandi lagastoð í 2. mgr. 37. gr. fjarskiptalaga og því yrði að fella hana úr gildi.

 

Til baka