Samráð um viðmið til mats á því hvort að tap Mílu af alþjónustu feli í sér ósanngjarna byrði
27. maí 2019Með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 25/2018, „Umsókn Mílu ehf. um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu“ komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að tap Mílu af því að útvega tengingu við almenna talsímanetið væri eftirfarandi:
Beinn nettókostnaður 121.036.950 kr.
- Markaðsávinningur -54.289.967 kr.
= Nettókostnaður 66.746.983 kr.
Í forsendum ákvörðunarinnar sem og í ákvörðunarorðum var upplýst að stofnunin myndi taka sérstaka ákvörðun um hvort að nettókostnaður Mílu, þ.e. 66.746.983 kr. væri ósanngjörn byrði í skilningi 1. mgr. 21. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003, en það er forsenda fyrir úthlutun alþjónustuframlags til félagsins.
Tilgangur þessa samráðsskjals er að gefa hagsmunaaðilum kost á að koma með athugasemdir við þau sjónarmið sem stofnunin hyggst taka mið af við mat á því hvort hinn reiknaði nettókostnaður sé ósanngjörn byrði á félaginu. Jafnframt að benda á önnur sjónarmið sem hagsmunaaðilar telja rétt að tekið sé mið af við mat PFS.