Hoppa yfir valmynd

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknar PFS

Tungumál EN
Heim

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknar PFS

1. apríl 2019

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Póst- og fjarskiptastofnun af kröfu Símans hf. um ógildingu ákvörðunar stofnunarinnar nr. 14/2014, um heimild Sýnar hf. (áður Fjarskipti hf.) og Nova ehf. til samnýtingar tíðniheimilda fyrir farsíma- og farnetsþjónustu. 

Taldi Síminn hf. að annmarkar ákvörðunarinnar fælust í því að:

  1. umrædd samnýting fæli í sér framsal sem væri bannað samkvæmt ákvæði 2. mgr. 7. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003,
  2. að hún hafi brotið gegn fjarskiptalögum og samkeppnislögum nr. 44/2005,
  3. að hún hefði haft í för með sér samkeppnihamlandi aðgerð, og
  4. að ákvörðunin bryti í bága við meginreglur útboðsréttar og útboðsskilmála undirliggjandi tíðniheimilda. 

Dómurinn féllst ekki á kröfu Símans og sýknaði Póst- og fjarskiptastofnun ásamt Sýn hf. og Nova ehf. þannig af öllum kröfum félagsins. Var það mat dómsins að samnýting félaganna á umræddum tíðniheimildum gæti ekki falið í sér framsal í skilningi 2. mgr. 7. gr. fjarskiptalaga.  

Þá taldi dómurinn að hvorki yrði litið svo á að ákvörðun stofnunarinnar hefði sjálfkrafa í för með sér samkeppnihamlandi aðgerð, sem myndi leiða til ógildingar hennar, né að hún yrði ógilt á grundvelli þess heildarmats sem stofnunin vann á áhrifum hennar á fjarskiptamarkað. Líta yrði til lögbundins hlutverks stofnunarinnar samkvæmt lögum nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun, og þeirra markmiða sem þau lög og fjarskiptalög kveða á um að stofnunin vinni að, þegar lögmæti ákvörðunarinnar yrði metið. 

Þannig segir í dómnum að þótt stofnunin verði að líta til samkeppnislegra sjónarmiða við ákvarðanatöku þá verði hún jafnframt að líta til annarra sjónarmiða, svo sem hagnýtingu tíðnirófsins, fjárfestinga í fjarskiptainnviðum og áhættu af þeim, þróun fjarskiptaþjónustu og hagsmuna neytenda. Taldi dómurinn að stofnunin hafi, með hliðsjón af valdmörkum hennar og Samkeppniseftirlitsins, tekið tilhlýðilegt tillit til stöðu samkeppni fyrir farsíma- og farnetsþjónustu, í ákvörðun sinni. Hafi ávinningur af samstarfi félaganna verið látinn vega þyngra en hugsanleg áhrif á samkeppni á viðkomandi markaði. Taldi dómurinn að Síminn hf. hafi ekki náð að leggja fram gögn sem hefðu áhrif á umrætt hagsmunamat stofnunarinnar.  

Dómurinn hefur ekki verið birtur á heimasíðu dómstólsins.  

Til baka