Hoppa yfir valmynd

Framlag til Neyðarlínunnar úr jöfnunarsjóði alþjónustu fyrir árið 2019

Tungumál EN
Heim

Framlag til Neyðarlínunnar úr jöfnunarsjóði alþjónustu fyrir árið 2019

21. mars 2019

Póst- og fjarskiptastofnun hefur með ákvörðun sinni nr. 7/2019 samþykkt framlag til Neyðarlínunnar ohf. úr jöfnunarsjóði alþjónustu fyrir árið 2019 vegna neyðarsímsvörunar.


Á undanförnum árum hefur ríkt ójafnvægi á milli þeirra tekna sem renna í jöfnunarsjóð alþjónustu í fjarskiptum og þeirra útgjalda sem leiða af ákvörðunum PFS um alþjónustuframlög til Neyðarlínunnar. Til að halda framlögum til Neyðarlínunnar óbreyttum, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga, hefur PFS gengið á inneign sem hefur verið til staðar í sjóðnum en 2018 tæmdist sjóðurinn. Við útgreiðslu á framlagi fyrir árið 2019 getur PFS því ekki gengið á inneign í sjóðinum eins og stofnunin hefur gert undanfarin ár til að brúa bilið á milli tekna og útgjalda sjóðsins.


Þá liggur fyrir að ekki er fyrir hendi skuldbinding af hálfu stjórnvalda um að auka tekjur sjóðsins, heldur er það fremur fyrirætlun samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að endurskoða reglugerð um alþjónustu nr. 1356/2007 með það fyrir augum að hverfa frá því að fjármagna neyðarsímsvörun með framlögum úr jöfnunarsjóði alþjónustu.


Umsókn Neyðarlínunnar hljóðaði upp á framlag að upphæð kr. 78.289.112 og var samþykkt að leggja hana til grundvallar sem útreiknaða alþjónustubyrði félagsins. Hins vegar þarf úthlutað framlag að taka mið af inneign í sjóðinum og væntum tekjum, auk þess sem útgreiðsla framlags þarf að eiga sér heimild í fjárlögum. 
Áætlaðar tekjur jöfnunarsjóðs með álagningu jöfnunargjalds á árinu 2019 nema 45,7 milljónum kr. Það er sú upphæð sem útgjaldaheimild fyrir jöfnunarsjóð alþjónustu sem fjárlög ársins 2019 kveður á um. 


Samkvæmt framangreindu getur útgreiðsla alþjónustuframlags til Neyðarlínunnar, miðað við þær útgjaldaheimildir sem nú eru fyrir hendi í fjárlögum, ekki orðið hærri en kr. 45.700.000.  


Ákvörðun PFS nr. 7/2019 - Alþjónustuframlag til Neyðarlínunnar ohf. fyrir árið 2019

Til baka