Hoppa yfir valmynd

Útburðargæði bréfa innan alþjónustu miðast ekki við einstaka póstsendingar

Tungumál EN
Heim

Útburðargæði bréfa innan alþjónustu miðast ekki við einstaka póstsendingar

7. mars 2019

Úrskurðarnefnd fjarskipta og póstmála hefur staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 12/2018, um útburð á A-pósti.  

Hin kærða ákvörðun varðaði kvörtun tiltekinna félagasamtaka til PFS þess efnis að Íslandpóstur (ÍSP) hafi ekki hafa borið út tímarit kvartanda sem A-póst. Krafðist kvartandi endurgreiðslu þess mismunar sem að væri á gjaldskrá ÍSP á A-pósti og B-pósti. Í svörum ÍSP til PFS um framkomna kvörtun kom fram að ekkert athugavert hafi komið í ljós varðandi útburð og að þjónustan hefði verið innan gæðaviðmiða.  
Um útburðargæði bréfa innan alþjónustu er fjallað í 13. gr. reglugerðar um alþjónustu og framkvæmd póstþjónustu nr. 364/2003 en þar segir að ef um daglegan útburð er að ræða skal að lágmarki 85% innanlandspósts í hraðasta flokki (A-póstur) borinn út daginn eftir póstlagningu og 97% skal borinn út innan þriggja daga. Þessi krafa miðast við þriggja mánaða tímabil en ekki einstakar póstsendingar.  

Það var mat PFS að gera mætti ráð fyrir allnokkrum fjölda tilvika þar sem að útburður bréfa innanlands í hraðasta flokki fari undir þetta lágmarksviðmið eða upp undir 15% af öllum póstsendingunum. Gæði þjónustunnar væri engu að síður yfir viðmiðinu yfir heildartímabil mælinga og sú framkvæmd sem ÍSP viðhafði við útburð á umræddum póstsendingum hafi verið í samræmi við lög um póstþjónustu nr. 19/2002 og fyrrnefnda reglugerð. Að því virtu var það niðurstaða stofnunarinnar að kvartandi ætti ekki rétt á endurgreiðslu á muninum á því sem nam gjaldinu fyrir A- og B-póst, sér í lagi ef litið væri til þess að 38. gr. laga um póstþjónustu kveður á um að póstrekendum sé ekki skylt að greiða skaðabætur þó að póstsendingum seinki. 

Úrskurðarnefndin staðfesti þessa niðurstöðu PFS um að meðferð Íslandspósts á póstsendingum kæranda hafi ekki farið gegn ákvæðum laga um póstþjónustu eða reglugerð um alþjónustu og framkvæmd póstþjónustu. Þá tók nefndin fram að ekki væri fram hjá því litið að samkvæmt ofangreindum viðmiðum um gæði póstþjónustu, þá væri gert ráð fyrir að póstsendingum sem póstlagðar væru sem A-póstur, kynni að seinka í einhverjum tilvikum.  

 

Til baka