Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun PFS varðandi úttekt á öryggisskipulagi Farice ehf.

Tungumál EN
Heim

Ákvörðun PFS varðandi úttekt á öryggisskipulagi Farice ehf.

17. desember 2018

Póst- og fjarskiptastofnun hefur nú birt ákvörðun sína um úttekt á öryggisskipulagi Farice ehf. og raunlægu öryggi hýsingarrýma landtökustaða sæstrengja félagsins, DANICE og FARICE-1. 

Þjónusta Farice ehf. byggir á aðgangi að framangreindum strengjum og eru fjarskiptafélög, gagnaver, skýjaþjónustur og stærri fyrirtæki hér á landi í hópi viðskiptavina félagsins. Þjónusta Farice ehf. gegnir lykilhlutverki við veitingu almennrar fjarskiptaþjónustu hér á landi. Virkni og öryggi ljósleiðarastrengjanna er því gríðarlega mikilvæg fyrir hagsmuni landsins og allra landsmanna. 

Úttekt Póst- og fjarskiptastofnunar var tvíþætt. Í fyrsta lagi var öryggisskipulag Farice ehf. tekið út og í öðru lagi var gerð úttekt á raunlægu öryggi hýsingarrýma landtökustaða sæstrengja félagsins. Farice ehf. leigir aðstöðu í húsnæði Mílu ehf. á Seyðisfirði og því voru raunlægar öryggisráðstafanir Mílu ehf. til skoðunar í úttektinni.

Hvað varðar fyrrnefndu úttektina var um að ræða skrifborðsúttekt sem fólst í því kanna hvort að félagið viðhafi skriflegt öryggisskipulag í samræmi við ákvæði fjarskiptalaga og afleiddra réttarheimilda. Það er niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar að félagið hafi leitast við að fullnægja kröfum hlutaðeigandi lagaákvæða. Ákveðnar brigður hafi þó verið á öryggisskipulaginu, sér í lagi er varða gerð skriflegra öryggisráðstafana fyrir Hallgeirsey. Aftur á móti hefur félagið farið í endurskoðun á öryggisskipulagi sínu þar sem byggt er á aðferðarfræði ISO 27001 staðalsins og hefur Póst- og fjarskiptastofnun nú þegar fengið senda nýja öryggisstefnu, áhættumat og viðbragðsáætlun félagsins. 

Síðarnefnda úttektin fólst í vettvangsathugun á hýsingarrýmum landtökustaða FARICE-1 og DANICE, þar sem strengirnir eru tengdir við landsnet Mílu ehf. Fór vettvangsathugunin fram dagana 6. og 7. júní 2018. Alls voru um 260 öryggisráðstafanir skoðaðar í 15 rýmum sem úttektin náði til. Stofnunin gerði 96 athugasemdir sem leiddu til samtals 52 mismunandi tegunda frávika, þ.e. 8 frávika sem félagið þarf að bregðast við innan 4 mánaða, 12 minniháttar frávik sem félagið þarf að bregðast við innan tólf mánaða og 32 atriða sem töldust án frávika og leiða ekki til sérstakra viðbragða af hálfu Farice ehf. Þannig sýna niðurstöður úttektarinnar að raunlægt öryggi á landtökustöðum Farice ehf. fyrir sæstrengi félagsins er vel háttað. Hvað varðar FARICE-1 á Seyðisfirði er öryggi í langflestum tilfellum í samræmi við öryggisráðstafanir Mílu ehf., sbr. 7. gr. reglna nr. 1222/2007, sbr. 3. tl. 7. gr. reglna, nr. 1221/2007, um vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum, og valin lágmarksviðmið 10. gr. um virkni almennra fjarskiptaneta. Hið sama á við um landtökustað DANICE í Hallgeirsey en þar eru öryggisráðstafanir í langflestum tilfellum í samræmi við lágmarksviðmið 10. gr. framangreindra reglna og þær öryggisráðstafanir sem gögn málsins sýna að eigi að vera til staðar.

Úttektarskýrsla Póst- fjarskiptastofnunar, sem er viðauki við ákvörðun þessa, er trúnaðarskjal. Því verður ekki gert opinbert hvaða tilteknu öryggisráðstafanir stofnunin gerði athugasemdir við, þar sem það getur það ógnað raunlægri vernd og virkni fjarskiptanetsins og varðað almannahagsmuni.

Ákvörðunin í heild sinni.

Til baka