Hoppa yfir valmynd

Beiðni Íslandspósts um hækkun gjaldskrár bréfapósts innan einkaréttar hafnað

Tungumál EN
Heim

Beiðni Íslandspósts um hækkun gjaldskrár bréfapósts innan einkaréttar hafnað

12. nóvember 2018

Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 21/2018, þar sem stofnunin hafnar erindi Íslandspósts ohf. um 8% hækkun á gjaldskrá félagsins innan einkaréttar.  Í ákvörðun stofnunarinnar kemur m.a. fram að krafa félagsins um 8% hækkun, sem byggðist á magnminnkun, sé hærri en sem nemur tekjutapi félagsins af þeirri magnminnkun sem erindi félagsins byggir á. 

Einnig er áætlað tekjutap vegna magnminnkunar umfram áætlun ársins lægri en sem nemur áætlaðri afkomu einkaréttar á árinu miðað við óbreytta gjaldskrá.  Jafnframt verði að taka tillit til þess að starfsþáttayfirlit ÍSP fyrir árið 2017 sýndi góða afkomu innan einkaréttar, sem styrkir afkomugrundvöll ársins 2018. Einnig hafi forsendur um hagræði við vinnslu og dreifingu bréfa sem fjallað var um í ákvörðun PFS nr. 2/2018 gengið efir að stærstum hluta og dragi þar með úr þörf á hækkun.  

PFS getur einungis samþykkt eða hafnað erindum ÍSP um gjaldskrárbreytingar, sbr. úrskurður úrskurðarnefndar nr. 4/2014. Það er því niðurstaða PFS að erindi ÍSP, eins og það var lagt fram, s.s. um magnminnkun, afkomu einkaréttar og það hagræði sem hlaust af þjónustubreytingunni þann 1. febrúar sl. að ekki séu forsendur fyrir stofnunina að samþykkja erindið. PFS leggur áherslu á eins og áður að ÍSP þurfi að fara varlega í að hækka gjaldskrá sína fyrir bréf innan einkaréttar hér á landi, enda geti það flýtt fyrir notkun rafrænna samskiptamiðla á kostnað bréfapósts. 

Stofnunin tók hins vegar fram að fljótlega kunni að skapast þær aðstæður varðandi einkaréttinn vegna síminnkandi magns, að óhjákvæmilegt verði að hækka einingarverð ef miða á við það kostnaðarmódel og forsendur sem stuðst hefur verið við hingað til. Hvort að best sé að bregðast við þessum aðstæðum með því að hækka gjaldskrá innan einkaréttar í takt við magnminnkun er ákvörðun sem Íslandspóstur verði að taka, enda er PFS hér eftir sem hingað til bundið af ákvæðum 4-6. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002 við mat á sínu samþykki við gjaldskrárbreytingum á einkarétti.

Hér má sjá ákvörðunina í heild sinni (PDF skjal)

Til baka