Hoppa yfir valmynd

Íslandspósti óheimilt að fella niður viðbótarafslætti

Tungumál EN
Heim

Íslandspósti óheimilt að fella niður viðbótarafslætti

7. nóvember 2018

Úrskurðarnefnd fjarskipta og póstmála (ÚFP) hefur staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 23/2017, um afslætti vegna reglubundna viðskipta í pósti.  
Íslandspóstur tilkynnti viðsemjendum sínum að svokallaðir viðbótarafslættir yrðu felldir niður frá og með 1. september 2017.

Í framhaldi af kvörtun frá Burðargjöldum tók PFS bráðabirgðaákvörðun nr. 9/2017 sem fól í sér að tilkynning Íslandspósts frá 7. apríl 2017, um niðurfellingu viðbótarafslátta fyrir magnpóst tæki ekki gildi fyrr en fullnægjandi rökstuðningur fyrir breytingunni hefði verið samþykktur af PFS.

Bráðabirgðaákvörðun PFS var kærð til úrskurðarnefndar, sem staðfesti hana með úrskurði nr. 3/2017, m.a. með þeim orðum að PFS hefði verið heimilt að gera athugasemdir við skilmálabreytinguna og hefja rannsókn á lögmæti breytinganna.

Niðurstaða ákvörðunar PFS nr. 23/2017 sem úrskurðarnefnd hefur nú staðfest var tvíþætt. Annars vegar taldi PFS að ÍSP hefði ekki sýnt fram á að með þeim breytingum sem gerðar væru á afsláttafyrirkomulagi, með niðurfellingu viðbótarafsláttarins, væri fyrirtækið að skila öllum sparnaði af viðskiptum við söfnunaraðila og/eða stóra sendendur í formi afslátta, eins og skylt væri skv. 5. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu. Hins vegar var það niðurstaða stofnunarinnar, með hliðsjón af framangreindu, að krefjast þess að kærandi afturkallaði tilkynningu sína til viðskiptavina sinna, dags. 7. apríl 2017, eða gerði aðrar þær breytingar á afsláttarfyrirkomulaginu sem leiddu til þess að tryggt væri að sendendur póstsendinga og/eða söfnunaraðila fengju þann afslátt sem þeim bæri lögum samkvæmt.

Í forsendum úrskurðar nefndarinnar kemur m.a. fram að ÍSP hafi frá árinu 2012 veitt afslætti vegna reglubundinna viðskipta á mánaðarlegum grundvelli sem hluta af magnafsláttum á grundvelli 5. mgr. 16. gr. laganna en hyggist nú leggja þá alfarið niður.

PFS hafi það hlutverk lögum samkvæmt að staðfesta breytingar á gjaldskrám ÍSP eða eftir atvikum krefjast breytinga á viðskiptaskilmálum brjóti þeir gegn lögum, reglugerðum eða ákvæðum rekstrarleyfa þegar við á. Þeir viðskiptaskilmálar sem ÍSP hafi boðað breytingar á falla undir gjaldskrá innan einkaréttar og því þurfi einnig að hafa í huga samkeppnissjónarmið, líkt og allir málsaðilar hafa og bent á.

Í forsendum hinnar kærðu ákvörðunar komi fram að PFS taldi nauðsynlegt að skoða mat á hagræði og afsláttum því tengdu í heildarsamhengi. Hefur sú afstaða stofnunarinnar legið fyrir allt frá því að gjaldskráin var sett árið 2012 og undir þetta sjónarmið hefur úrskurðarnefndin tekið í fyrri úrskurðum vegna þessara afsláttakjara og gerir enn. Verður það því talið lögmætt sjónarmið og í fullu samræmi við 5. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu, nr. 19/2002, að krefjast þess að ÍSP geri með rökstuddum hætti grein fyrir því hvaða rekstrarlegar forsendur liggi að baki því að fella eigi niður afslætti vegna mánaðarlegra heildarviðskipta.

Eins er það lögmætt sjónarmið af hálfu PFS að krefjast rökstuðnings fyrir þeirri staðhæfingu ÍSP að þeir magnafslættir sem eftir standa óbreyttir komi að fullu til móts við þá lagaskyldu er hvílir á kæranda á grundvelli 5. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu, nr. 19/2002.

Ekki verður séð af málsgögnum að ÍSP hafi stutt mál sitt með gögnum frá t.d. ytri endurskoðendum sínum eða öðrum sérfræðingum sem metið hafa mismunandi aðferðafræði ÍSP sjálfs og þá sem PFS hafði stuðst við. Fram komi það mat PFS að aðferð við útreikning sem byggir á kostnaðargreiningu ÍSP, sem stofnunin hafi yfirfarið og samþykkt með breytingum, samræmist þessari meginreglu laga um póstþjónustu. Í þeim tilgangi að greina sparnað sem rekja má til magnviðskipta taldi PFS að taka ætti mið af kostnaðarbókhaldi ÍSP, sem byggi á raunkostnaði hans að viðbættum hæfilegum hagnaði. Taldi ÚFP að í ljósi allra málsatvika, að fullt tilefni hefði verið fyrir ÍSP að rökstyðja mál sitt frekar. Á PFS yrði ekki lögð sú skylda að rökstyðja ástæður fyrir breytingum á gjaldskrá kæranda á grundvelli rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. ÍSP hlyti að axla sönnunarbyrði að þessu leyti. Yrði því ekki talið að PFS hafi brotið gegn rannsóknarreglu heldur hafi stofnunin í reynd sinnt henni með því að hafa ítrekað óskað eftir viðhlítandi gögnum frá ÍSP. Þau gögn sem um ræðir ættu að vera í umráðum ÍSP og því ekki um brot á meðalhófi að krefjast frekari rökstuðnings af hálfu ÍSP. Yrði að telja að PFS hafi verið það nauðsynlegt til þess að stofnunin gæti gengið úr skugga um að ákvörðun um niðurfellingu afsláttarins væri í samræmi við ákvæði 5. gr. 16. gr. laga um póstþjónustu, nr. 19/2002.

ÚFP féllst því ekki á  þau sjónarmið ÍSP að ógilda ætti hina kærðu ákvörðun á grundvelli þess að hún væri andstæð lögum, haldin alvarlegum form- og efnisannmörkum, færi gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins eða fæli í sér ómálefnalega meðferð stjórnsýsluvalds. Var kröfu ÍSP því hafnað og hin kærða ákvörðun staðfest.

Úrskurðurinn í heild:
Úrskurður nr. 12/2017 (pdf)

Til baka