Hoppa yfir valmynd

Samkomulag um tillögu að nýju fjarskiptaregluverki innan Evrópska efnahagssvæðisins

Tungumál EN
Heim

Samkomulag um tillögu að nýju fjarskiptaregluverki innan Evrópska efnahagssvæðisins

19. júní 2018

Evrópuþingið og Evrópuráðið hafa komist að samkomulagi um uppfærslu á fjarskiptareglum Evrópusambandsins. Vonir standa til að með þessum nýju tillögum sambandsins um EECC (European Electronic Communications Code) muni fjárfestingar í háhraðanetum aukast um alla Evrópu, einnig í dreifbýli og fámennari sveitum.

Reglurnar eru mikilvægur þáttur í að sambandið, þ.m.t. EES svæðið, nái settum markmiðum um aðgengi íbúa að internetinu  og tryggi þannig öllum þátttöku að stafræna hagkerfinu.

Framkvæmdastjórn ESB telur að nýju reglurnar munu:

 • Hraða innleiðingu 5G farsímaneta þannig að þau verði aðgengileg í árslok 2020 og veita þjónustuaðilum fyrirsjáanleika um tíðniúthlutanir til að minnsta kosti 20 ára og stuðla að bættri skipulagningu tíðnisviðsins.
 • Auðvelda innleiðingu á háhraðaneti með því að liðka fyrir sameiginlegum fjárfestingum og dreifa áhættu við útbreiðslu slíkra neta og stuðla að aukinni samkeppni milli netrekenda, neytendum til hagsbóta. Nýju reglurnar munu einnig tryggja aukna samvinnu milli framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og BEREC við eftirfylgni með aðgerðum tengdum sameiginlegri fjárfestingu og gagnkvæmum kvöðum.
 • Auka neytendavernd óháð því hvort notkun fer í gegnum hefðbundin símtöl og SMS eða með notkun smáforrita á borð við Skype og WhatsApp með því að:
  • tryggja öllum íbúum aðgengi að fjarskiptaþjónustu á viðráðanlegu verði;
  • tryggja að mínútuverð á millilandasímtölum innan ESB muni ekki fara yfir EUR 0,19 (ca. 24 ISK) en á sama tíma stuðla að samkeppni, nýsköpun og fjárfestingu;
  • tryggja aðgengi fatlaðra að þjónustunni;
  • stuðla að gegnsærri verðlagningu og samanburðarhæfum tilboðum;
  • tryggja betri vörn gegn öryggisbrotum, svo sem vírusum og innbrotum;
  • bætt vernd neytenda sem eru áskrifendur að vöndlum þjónustu (e. bundling)
  • auðvelda notendum að skipta um þjónustuaðila og halda sama númeri og setja reglur um bætur ef það gengur ekki eftir;
  • auka öryggi íbúa t.d. með því að bæta staðsetningarþjónustu þegar um neyðarsímtöl er að ræða, bæta við neyðarþjónustu með SMS og myndsímtölum og að koma á kerfi til að senda út viðvaranir frá almannavörnum í farsíma.

Að áliti framkvæmdastjórnar ESB vænta Evrópubúar þess að hafa aðgang að tryggum háhraða internettengingum hvort sem þeir eru heima, í vinnu eða á ferðinni. Hvatning til aukinnar fjárfestingar í háhraða neti er æ mikilvægari fyrir menntageirann, heilbrigðisgeirann, framleiðslufyrirtæki og flutninga.

Til að mæta þessum áskorunum og undirbúa Evrópu fyrir stafræna framtíð lagði Evrópuráðið fram tillögur að EECC regluverkinu í september 2016 og tillögur að endurskoðaðri BEREC reglugerð (Body of European Regulators for Electronic Communications). Vænta má þess að endurskoðaðar tillögur að nýju fjarskiptaregluverki, með þeim breytingum sem fólust í samkomulaginu, verði birtar innan tíðar.

Í mars 2018 samþykktu bæði Evrópuþingið og Evrópuráðið tímasett markmið um innleiðingu 5G innan EES- svæðisins. Þegar nýja EECC regluverkið hefur verið endanlega samþykkt munu löndin á EES-svæðinu hafa tvö ár til að innleiða það innan sinna vébanda.

Til baka