Hoppa yfir valmynd

Niðurstaða síðara samráðs um breytingar á reglum innanhússfjarskiptalagnir

Tungumál EN
Heim

Niðurstaða síðara samráðs um breytingar á reglum innanhússfjarskiptalagnir

16. apríl 2018

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur nú unnið úr umsögnum um þær breytingar sem stofnunin boðaði í síðara samráði um breytingar á reglum nr. 1111/2015 um innanhússfjarskiptalagnir. Að þessu sinni bárust stofnuninni athugasemdir frá fjórum aðilum, þ.e. Gagnaveitu Reykjavíkur ehf., Mílu ehf., Tengi hf. og frá sjálfstætt starfandi rafeindavirkjameistara.

Boðaðar breytingar PFS á reglum um innanhússfjarskiptalagnir hafa þann tilgang að skapa málamiðlun um þær tvær aðferðir sem notaðar eru við að tengja heimtaugar við innanhússfjarskiptalagnir, þ.e. annars vegar tenging með svokallaðri bræðisuðu og hins vegar tenging á þráðum í tengilista.

Í framkvæmd hefur í sumum tilvikum reynst vandasamt að nálgast lausan aukaþráð í fjarskiptainntaki þar sem notast hefur verið við bræðisuðu. PFS getur tekið undir að það sé ekki æskilegt að fjarskiptafyrirtæki þurfi að opna húskassa sem komið hefur verið upp af öðru fjarskiptafyrirtæki til að nálgast lausan þráð eða klippa á þræði, ef enginn laus þráður er fyrir hendi. Þetta hefur valdið hættu á því að aðrar tengingar í fjarskiptainntaki verði fyrir hnjaski og skemmdum.

Lausnin á þessu er ekki að gera kröfu um tvö eða fleiri aðskilin fjarskiptainntök sem umlukin eru með húskassa hvers og eins fjarskiptafyrirtækis, en krafa um slíka lausn á sér ekki stoð í lögum. Sú breyting sem PFS telur rétt að gera er að gera þá kröfu að þegar notast er við bræðisuðu skuli leggja aukaþráð til hverrar íbúðar, ef um fjölbýlishús er að ræða, og gera slíka aukaþræði aðgengilega í tengilista.

Nánar má lesa um sjónarmið PFS til breytinganna og svör við helstu athugasemdum umsagnaraðila í skjalinu hér fyrir neðan um niðurstöður síðara samráðs.

Niðurstaða í síðara samráði. Helstu álitamál varðandi breytingar á reglum um innanhússfjarskiptalagnir. 

 

 

 

Til baka