Hoppa yfir valmynd

Hlutfall línulegs áhorfs á íslenskar sjónvarpsstöðvar breytist lítið

Tungumál EN
Heim

Hlutfall línulegs áhorfs á íslenskar sjónvarpsstöðvar breytist lítið

6. apríl 2018

Með breyttum aðstæðum í flutningi sjónvarpsefnis um fjarskiptanet, koma æ fleiri verkefni sem tengjast fjölmiðlum inn á borð PFS. Sérstaklega hefur reynt á þætti sem tengjast því hvort áhorf á sjónvarpsefni er línulegt, þ.e. fer fram á sama tíma og efnið er sent út, eða hvort um svokallað hliðrað áhorf er að ræða. Hliðrað áhorf er það áhorf sem fram fer eftir upphaflegan útsendingartíma, en innan þess tíma sem áskrifandi hefur aðgang að efninu án þess að borga sérstaklega fyrir það. Slíkt áhorf eftir á, t.d. í tímaflakki/tímavél sem er til takmarkaðs tíma, t.d. innan eins sólarhrings frá útsendingu, eða frelsi, byggist á gagnvirkri sjónvarpsþjónustu sem fram fer á fjarskiptanetum og því fellur flutningur þess að hluta til innan fjarskiptalaga.

PFS hefur nú í þriðja sinn fengið rannsóknarfyrirtækið Gallup til að skoða sérstaklega hlutfall hliðraðs áhorfs á íslenskar sjónvarpsstöðvar, en fyrirtækið hefur mælt sjónvarpsáhorf með rafrænum hætti frá árinu 2008. Sú skýrsla sem hér er lögð fram sýnir þróun á hlutfalli hliðraðs áhorfs gagnvart línulegu áhorfi á síðustu fimm árum, frá upphafi ársins 2012 til loka ársins 2017.

Hafa ber í huga að skýrslan fjallar ekki um nema hluta af ólínulegu áhorfi. Fyrst og fremst er hún að fanga tímaflakk (hliðrað áhorf um 24-36 tíma og frelsi sem er almennt 28 dagar). Skýrslan fangar ekki áhorf á innlendar né erlendar efnisveitur svo sem Sjónvarp Símans Premium, Stöð 2 Maraþon, Vodafone Play, Netflix eða aðrar slíkar efnisveitur.

Ein nýjung er í skýrslunni sem nú er birt. Hún er sú að nú er mælt eftir aldurshópum sem ekki var gert í fyrri skýrslum. 

Helsta niðurstaða skýrslunnar nú er að hlutfall hliðraðs áhorfs gagnvart línulegu áhorfi hefur aukist lítillega.  Enn horfir meirihluti landsmanna á dagskrá íslenskra sjónvarpsstöðva með línulegum hætti, þ.e. horft er á útsendinguna sjálfa þegar hún fer fram. Hliðrað áhorf sem fram fer innan sólarhrings frá útsendingu  eykst dálítið, fer úr 9,3% í 10,6%. Það hliðraða áhorf sem fer fram eftir sýningardag, en innan viku frá útsendingu stendur nánast í stað.

Eftir að hliðrað áhorf hafði þrefaldast á árunum 2012 til 2015 sýna mælingar því nú að hlutfall áhorfs utan útsendingartíma hefur aðeins örlítið aukist á milli áranna 2016 og 2017. Eins og áður segir er hér eingöngu um að ræða mælingar á áhorfi í tímaflakki eða frelsi, ekki áhorf á innlendar né erlendar efnisveitur. Hins vegar er ljóst að áhorf á ólínulegt myndefni er mun meira en umrædd skýrsla sýnir þar sem áskrifendur að efnisveitum á borð við þær ofangreindu skipta tugþúsundum hér á landi.

Hér fyrir neðan má nálgast skýrsluna í heild, en hafa ber eftirfarandi í huga þegar skýrslan er skoðuð:

 • Eingöngu er um að ræða innlendar sjónvarpsstöðvar
 • Línulegt áhorf er það áhorf sem á sér stað á þeim tíma sem dagskrárliður er sendur út en hliðrað áhorf er allt áhorf sem á sér stað eftir upphaflegan útsendingartíma
 • Áhorf á plússtöðvar telst vera línulegt áhorf, enda er horft á útsendinguna á þeim tíma sem útsendingin er í gangi. Þetta áhorf er sýnt sem hluti af áhorfi á aðalrás viðkomandi plússtöðvar.
 • Eftirfarandi stöðvar voru mældar allt mælitímabilið: Bíóstöðin, RÚV, Stöð 2 og Sjónvarp Símans.
  Krakkastöðin var mæld út febrúar 2015.
  RÚV 2 kom inn í mælinguna í ágúst 2012, Stöð 2 Sport/Stöð 2 Sport 2 komu inn í mælinguna í febrúar 2017, Stöð 3 kom inn í mælinguna í september 2013 og Hringbraut kom inn í mælinguna í ágúst 2015 en var ekki í mælingu júní -ágúst 2017.
  Popp TV er inni í mælingunni frá ágúst 2012 til janúar 2016, Gullstöðin er inni í mælingunni frá september 2013 til maí 2016 og ÍNN er inni í mælingunni frá september til nóvember 2015. N4 er inni í mælingunni frá september 2014 til janúar 2016 og síðan aftur í maí, júní, nóvember og desember 2017.
  Frá apríl 2016 hefur Sjónvarp Símans ekki haft upptökur og forsýningar í Sjónvarpi Símans Premium (áður Frelsi) í áhorfsmælingum.

Sjá skýrsluna í heild:

Þróun á sjónvarpsáhorfi og hlutdeild hliðraðs áhorfs 2012 – 2017

 

 

 

Til baka