Hoppa yfir valmynd

Ekki skilyrði til að breyta ákvörðun Íslandspósts um fækkun dreifingardaga í þéttbýli

Tungumál EN
Heim

Ekki skilyrði til að breyta ákvörðun Íslandspósts um fækkun dreifingardaga í þéttbýli

23. janúar 2018

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) birtir nú ákvörðun sína nr. 2/2018 þar sem hún kemst að þeirri niðurstöðu að ekki séu skilyrði til að breyta ákvörðun Íslandspósts um að fækka dreifingardögum í þéttbýli frá og með 1. febrúar nk.

Stofnunin tilkynnti um þessa fyrirætlun Íslandspósts með frétt hér á vefnum þann 7. nóvember sl. Þar var gerð grein fyrir áformum Íslandspósts um fækkun dreifingardaga sem og þeirri reglugerð sem hún byggði á. Samkvæmt tilkynningu Íslandspósts áætlaði fyrirtækið að fækka dreifingardögum bréfapósts þannig að hvert heimili í þéttbýli fái til sín bréfapóst annan hvern dag, með þjónustustiginu D+3. Það þýðir að póstinn skuli bera út innan þriggja daga frá því hann er póstlagður. Gert var ráð fyrir að breytingin tæki gildi 1. febrúar 2018.

Um sambærilega breytingu er að ræða og gerð var á dreifingu Íslandspósts í dreifbýli á árinu 2015.

Í tilkynningu sinni óskaði stofnunin eftir að mögulegir hagsmunaaðilar skiluðu inn athugasemdum vegna þessara fyrirhuguðu breytinga.

Eitt fyrirtæki á markaði, Póstmarkaðurinn ehf., skilaði inn athugasemdum og krafðist þess m.a. að breytingarnar yrðu stöðvaðar.

Í ákvörðun sinni sem nú er birt er það niðurstaða PFS að skilyrði séu ekki til staðar til að breyta ákvörðun Íslandspósts um fækkun dreifingardaga, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002, og 10. gr. reglugerðar um alþjónustu nr. 364/2003, eins og henni var breytt með reglugerð nr. 595/2017.

Sjá ákvörðun PFS heild:

Ákvörðun PFS nr. 2/2018 - Fækkun dreifingardaga á pósti

 

 

Til baka