Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði um endurskoðun á reglum um innanhússfjarskiptalagnir

Tungumál EN
Heim

PFS kallar eftir samráði um endurskoðun á reglum um innanhússfjarskiptalagnir

16. janúar 2018

Á síðasta ári tók Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) tvær ákvarðanir er vörðuðu ágreining um túlkun og framkvæmd reglna nr. 1111/2015 um innanhússfjarskiptalagnir. Varðaði ágreiningurinn fyrst og fremst kröfur til frágangs fjarskiptatenginga í húskassa.

Að áliti PFS er tilefni til þess að gera reglurnar skýrari um ákveðna þætti og færa orðalag þeirra til samræmis við þá réttarskýrandi túlkun sem framangreindar ákvarðanir hafa geyma.  Að mati stofnunarinnar er einnig þörf á því að kveða nánar á um tiltekna þætti frágangs fjarskiptatenginga, t.d. hvernig skuli gengið frá lausum þræði innanhússlagnar í húskassa.

Þær breytingar sem um er að ræða eru efnislega þessar helstar:

  • Skýrara orðalag um það í hvaða tilvikum heimilt sé að nota splæsitengingar
  • Kveðið er á um að ganga skuli frá lausum þræði innanhússlagnar í húskassa á aðgengilegan hátt
  • Tengja skuli heimtaug við lausan þráð innanhússfjarskiptalagnar sé hann til staðar í stað þess að aftengja tengdan þráð sem fyrir er
  • Nánari skýring á reglu sem fjallar um nýtingu á aðstöðu til splæsitengingar sem fyrir er
  • Krafa um tilkynningu vegna aftengingar til þess fjarskiptafyrirtækis sem fyrir er við þjónustuflutning
  • Krafa um að innanhússfjarskiptalögn skuli vera hæf til að bera háhraða gagnaflutningsþjónustu
  • Útgáfa fyrirmyndar að vinnuseðli sem PFS mælist til að fjarskiptafyrirtæki og verktakar á þeirra vegum noti

Í skjalinu hér fyrir neðan er búið að færa inn framangreindar breytingar með sýnilegum hætti.

Hagsmunaaðilum er gefinn kostur á því að veita umsögn um fyrirhugaðar breytingar og leggja til og rökstyðja aðrar breytingar, ef svo ber undir.  Umsagnarfrestur er veittur til 5. febrúar 2018. Athugasemdir og umsagnir sendist til Björns Geirssonar á netfangið bjorn(hjá)pfs.is.

Fyrirhugaðar breytingar á reglum um innanhússfjarskiptalagnir

 

Til baka