Hoppa yfir valmynd

Óumbeðnar SMS sendingar stjórnmálaflokka óheimilar

Tungumál EN
Heim

Óumbeðnar SMS sendingar stjórnmálaflokka óheimilar

29. desember 2017

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) birtir í dag tvær ákvarðanir þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að SMS skilaboð sem Flokkur fólksins og Miðflokkurinn sendu fjölda farsímanotenda í aðdraganda kosninga til Alþingis sl. haust hafi ekki verið í samræmi við 1. mgr. 46. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003.

Stofnuninni bárust tugir kvartana í kringum kosningarnar sem fram fóru í lok október sl., vegna SMS skilaboða sem send voru í nafni flokkana og innihéldu hvatningu til þess að kjósa viðkomandi flokk. Í ljós kom að báðir flokkarnir höfðu fengið fyrirtækið 1819 – Nýr valkostur ehf. til þess að senda skilaboð til tuga þúsunda farsímanotenda.

Meðal þess sem fram kemur í ákvörðunum PFS sem nú eru birtar er að skilaboð sem þessi, frá stjórnmálaflokkum, teljast markaðssetning í skilningi 1. mgr. 46. gr. laga um fjarskipti. Þar er kveðið á um að „notkun sjálfvirkra uppkallskerfa, símbréfa eða tölvupósts, þ.m.t. hvers konar rafrænna skilaboða (SMS og MMS), fyrir beina markaðssetningu er einungis heimil þegar áskrifandi hefur veitt samþykki sitt fyrir fram. “

Eins og fram kemur í ákvæðinu þarf að afla sérstaks samþykkis frá hverjum viðtakanda fyrir sig áður en honum eru send rafræn skilaboð sem innihalda beina markaðssetningu. Það telst ekki samþykki fyrir móttöku slíkra skilaboða að hafa símanúmer sitt skráð í símaskrá án bannmerkingar.

Þá kemur fram í ákvörðunum PFS að það er sá aðili sem verið er að markaðssetja fyrir sem ber ábyrgð á að framkvæmd sé í samræmi við lög. Það að láta þjónustufyrirtæki annast útsendingar skilaboða fyrir sig firrir slíkan aðila ekki ábyrgð.

Sjá nánar í ákvörðununum sjálfum

Ákvörðun 28/2017 í kvörtunarmáli vegna óumbeðinna fjarskipta af hálfu Miðflokksins

Ákvörðun 29/2017 í kvörtunarmáli vegna óumbeðinna fjarskipta af hálfu Flokks fólksins

 

 

 

Til baka