Hoppa yfir valmynd

PFS samþykkir heildsöluverðskrá og skilmála Mílu fyrir IP talsímaþjónustu á aðgangsleið 3

Tungumál EN
Heim

PFS samþykkir heildsöluverðskrá og skilmála Mílu fyrir IP talsímaþjónustu á aðgangsleið 3

22. desember 2017

Með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 27/2017 samþykkir stofnunin niðurstöðu kostnaðargreiningar Mílu ehf. (Mílu) á nýrri þjónustu, IP talsímaþjónustu (VoIP) á aðgangsleið 3. Einnig samþykkir PFS skilmála viðmiðunartilboðs Mílu fyrir bitastraumsaðgang sem að þessari þjónustu snýr. Í dag er Míla að bjóða VoIP þjónustu á aðgangsleið 1 en þessi þjónusta hefur ekki verið í boði á aðgangsleið 3. VoIP þjónusta tilheyrir heildsölumarkaði fyrir bitastraumsaðgang sem er markaður nr. 5 samkvæmt tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá árinu 2008.

Ákvörðunin byggir á ákvörðun PFS nr. 21/2014 um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum heimtauga og bitastraums.

Mílu er skylt að veita VoIP þjónustu á aðgangsleið 3. Frá og með 1. apríl 2018 á þessi þjónusta að vera í boði samkvæmt þeim skilmálum og verðum sem PFS hefur nú samþykkt. Í þessu samhengi er rétt að benda á að frá og með áramótum fellur niður kvöð sem er á Símanum um að veita þjónustu á mörkuðum fyrir aðgang að fasta talsímanetinu í smásölu og einnig fyrir upphaf símtala í fasta almenna talsímanetinu í heildsölu. Á þeim tímapunkti verður Símanum heimilt að segja upp þeim samningum sem fyrirtækið hefur gert við önnur fjarskiptafyrirtæki á þessum mörkuðum. Um slíka uppsögn gilda uppsagnarákvæði samningsins, sem kveður á um 3 mánaða fyrirvara á uppsögn. Undir þessa þjónustu Símans fellur fast forval (FF) og fast forval einn heildstæður reikningur (FFER) sem Síminn hefur boðið upp á.

Samkvæmt þeirri ákvörðun sem nú er birt verður stofngjald fjarskiptafyrirtækis 1.073.280 kr. fyrir VoIP á aðgangsleið 3 og mánaðargjald hverrar tengingar 233 kr. Í meðfylgjandi ákvörðun eru tilgreindar þær forsendur sem liggja til grundvallar í kostnaðargreiningu Mílu og niðurstöðu PFS. Þá eru skilmálar þessarar þjónustu tilgreindir í viðauka I við ákvörðun þessa.

Efnt var til innanlandssamráðs um ákvörðunardrög PFS um heildsölugjaldskrá fyrir VoIP á aðgangsleið 3 þann 20. október sl. og stóð samráðið til 9. nóvember. Þann 27. október efndi PFS svo til samráðs um drög að ákvörðun sinni um breytingar Mílu á skilmálum viðmiðunartilboðs um bitastraumsaðgang að því er umrædda þjónustu varðar. Stóð það samráð einnig til 9. nóvember sl. Engar athugasemdir bárust í kjölfar umræddra samráða.

Drög að ákvörðuninni, voru send Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og öðrum eftirlitsstofnunum á EES-svæðinu til samráðs þann 21. nóvember sl. Athugasemdir ESA hafa nú borist og má finna þær í viðauka II (sjá skjölin hér fyrir neðan).

Ákvörðun PFS nr. 27/2017 - Skilmálar og heildsölugjaldskrá Mílu fyrir IP talsímaþjónustu á aðgangsleið 3 (Markaður 5/2008)

Viðauki I - Ný grein nr. 6.2 í Viðauka 5 við viðmiðunartilboð Mílu fyrir bitastraumsþjónustu

Viðauki II - Álit ESA

 

 

 

Til baka