Hoppa yfir valmynd

Uppbygging þekkingar um skráningu tíðna fyrir gervihnetti.

Tungumál EN
Heim

Uppbygging þekkingar um skráningu tíðna fyrir gervihnetti.

7. desember 2017

Póst- og fjarskiptastofnun og fyrirtækið ManSat hafa gert með sér samkomulag um að byggja upp þekkingu á skráningu gervihnattatíðna og kanna hvort fýsilegt sé að taka upp afgreiðslu slíkra skráninga hér á landi.

Tíðnir fyrir fjarskiptasendingar gervitungla eru skráðar hjá Alþjóðafjarskiptasambandinu (ITU) og geta aðildarríki sambandsins lagt fram umsóknir um slíkar skráningar. Skráningarferlið er flókið og tekur hver skráning nokkur ár.

Samningur Póst- og fjarskiptastofnunar og ManSat fjallar um þekkingaruppbyggingu á viðfangsefninu á næstu mánuðum og í framhaldi af því mun stofnunin meta hvort það er fýsilegur kostur að taka upp meðferð skráningarumsókna hér á landi.

Ef ákveðið verður að hefja móttöku skráningarumsókna í framhaldi af þessu undirbúningsverkefni gæti það skapað nokkur störf og hugsanlega einhverjar beinar tekjur fyrir ríkissjóð, en líta má til þess að í nokkrum smærri ríkjum þar sem slíkar skráningar hafa verið teknar upp, s.s. í Lúxemborg og á eyjunni Mön, hefur sprottið upp geimtækniiðnaður og tengd starfsemi í kjölfarið.

Fyrirtækið ManSat var stofnað árið 1998 og er með höfuðstöðvar á Mön og skrifstofur í Bretlandi og Bandaríkjunum. Fyrirtækið sérhæfir sig í skráningum gervihnattatíðna, hefur á að skipa reynslumiklum sérfræðingum og er þekkt sem leiðandi fyrirtæki á þessu sviði.

 

Til baka