Hoppa yfir valmynd

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Póst- og fjarskiptastofnun

Tungumál EN
Heim

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Póst- og fjarskiptastofnun

4. desember 2017

Ríkisendurskoðun hefur birt skýrslu sína til Alþingis um málsmeðferð og stjórnsýsluhætti hjá  Póst- og fjarskiptastofnun.  Innanríkisráðuneytið (núverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti), sem Póst- og fjarskiptastofnun heyrir undir, bað Ríkisendurskoðun um að gera slíka skýrslu í nóvember 2016.

Í skýrslunni er Póst- og fjarskiptastofnun hvött til að setja sér skýrari málsmeðferðar- og verklagsreglur og bæta samskipti sín við eftirlitsskylda aðila. Þá er samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti hvatt til að veita stofnuninni nauðsynlegan stuðning og aðhald, efla starfsemi fagráðs á sviði fjarskipta, ljúka gerð nýrrar fjarskiptaáætlunar og setja reglugerð um framkvæmd eftirlits stofnunarinnar.

Í skýrslunni kemur fram að á árunum 2013 - 2016 birti Póst- og fjarskiptastofnun alls 136 stjórnvaldsákvarðanir. Þar af voru 25 kærðar til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála sem felldi fjórar þeirra úr gildi. Þetta þýðir að af 136 ákvörðunum stofnunarinnar stóðust 132 eða 97%.

Þetta er vel innan skilgreindra árangursviðmiða stofnunarinnar og telur Ríkisendurskoðun þetta til marks um að stofnunin vinni ákvarðanir sínar almennt vel og í samræmi við lög.  Þó er bent á að bæta þurfi málsmeðferðarreglur Póst- og fjarskiptastofnunar og efla traust meðal þeirra aðila sem stofnunin hefur eftirlit með.

Póst- og fjarskiptastofnun mun taka þær ábendingar sem fram koma í skýrslunni til skoðunar og gera ráðstafanir til úrbóta eftir föngum.

Sjá skýrslu Ríkisendurskoðunar

 

 

Til baka