Hoppa yfir valmynd

Nýtt viðmiðunartilboð Mílu fyrir bitastraumsaðgang í heildsölu tekur gildi 1. ágúst nk.

Tungumál EN
Heim

Nýtt viðmiðunartilboð Mílu fyrir bitastraumsaðgang í heildsölu tekur gildi 1. ágúst nk.

3. júlí 2017

Með ákvörðun sinni nr. 10/2017 frá því í dag samþykkir Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) að nýtt viðmiðunartilboð Mílu ehf. fyrir bitastraumsaðgang í heildsölu taki gildi frá og með 1. ágúst nk. Hið samþykkta viðmiðunartilboð byggir á drögum sem stofnuninni barst frá Mílu að teknu tilliti til þeirra breytinga sem PFS mælir fyrir um á þeim. 

Hið nýja viðmiðunartilboð leysir af hólmi eldra viðmiðunartilboð Mílu um sama efni sem að stofni til er frá árinu 2009, eins og því var breytt með ákvörðun PFS nr. 12/2010. Núgildandi viðmiðunartilboð Mílu er dagsett 1. september 2013. Með ákvörðun PFS nr. 21/2014 var sú kvöð lögð á Mílu að viðhafa gagnsæi við sölu bitastraumsaðgangs í heildsölu og gefa út viðmiðunartilboð vegna slíks heildsöluaðgangs, sem uppfyllti þau skilyrði sem PFS setti.

Þann 26. maí 2016 bárust PFS fyrstu drög Mílu að hinu nýja viðmiðunartilboði. Þann 9. júní 2016 efndi PFS til samráðs um viðmiðunartilboðsdrögin og lauk því þann 23. ágúst 2016. Athugasemdir markaðsaðila voru sendar Mílu til umsagnar og barst PFS umsögn félagsins þann 6. október 2016. Endanleg drög Mílu að hinu nýja viðmiðunartilboði bárust PFS síðan þann 12. október sl. Þann 7. desember sl. efndi PFS til samráðs um drög að ákvörðun í málinu. Mílu var veitt færi á að tjá sig um framkomnar athugasemdir markaðsaðila í seinna samráðin og barst PFS umsögn félagsins þann 27. mars 2017. Þann 29. maí sl. efndi PFS svo til samráðs við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og önnur fjarskiptaeftirlitsstjórnvöld á EES-svæðinu um ákvörðunardrögin. 

Athugasemdir ESA bárust PFS þann 29. júní sl. ESA gerði ekki efnislegar athugasemdir við ákvörðunardrögin en gagnrýndi þann langa tíma sem tekið hefði að koma öllum kvöðum þeim sem lagðar hefðu verið á Mílu með framangreindri ákvörðun PFS nr. 21/2014 til framkvæmda. Minnti ESA PFS á þær eftirlitsheimildir sem stofnunin byggi yfir þegar kvaðabundnir aðilar færu fram yfir sett tímamörk við innleiðingu álagðra kvaða. 

PFS komst m.a. að þeirri niðurstöðu að Míla skyldi bjóða upp á IPTV þjónustu um aðgangsleið 3, bæði í xDSL og GPON netum félagsins. Míla hafði mótmælt því undir rekstri málsins. Til að tefja ekki innleiðingu hins nýja viðmiðunartilboðs, sem tekur til fjölmargra þátta, ákvað PFS að fjalla nánar um framangreinda IPTV þjónustu um aðgangsleið 3 í sérstöku máli. Míla skal skila afhenda PFS drög að uppfærðum skilmálum um þetta efni eigi síðar en 3 mánuðum eftir birtingu þeirrar ákvörðunar sem tekin var í dag, þ.e. eigi síðar en 3. október nk. Stefnir PFS að ljúka því máli í kringum næstu áramót. 

Með ákvörðun PFS nr. 6/2017, dags. 30. maí sl., samþykkti PFS nýja gjaldskrá fyrir Mílu á umræddum markaði sem tók gildi þann 1. júlí sl. Ennþá stendur eftir að samþykkja verðskrá Mílu fyrir aðgang að VoIP þjónustu í aðgangsleið 3. Stefnir PFS að því að ljúka því máli fyrir árslok áður en kvaðir á Símann, móðurfélag Mílu, falla brott á smásölumarkaði fyrir aðgang að fasta almenna talsímanetinu (markaður 1/2008) og heildsölumarkaði fyrir upphaf símtala í fastanetum (markaður 2/2008), skv. ákvörðun PFS nr. 23/2016.     


Ákvörðun PFS nr. 10/2017 – Viðmiðunartilboð Mílu fyrir bitastraumsaðgang í heildsölu (pdf)
Viðauki I – Fyrirmæli um breytingar (pdf)    
Viðauki II – Álit Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) (pdf)

 

Til baka