Hoppa yfir valmynd

Reikigjöld falla niður innan EES-svæðisins frá 15. júní

Tungumál EN
Heim

Reikigjöld falla niður innan EES-svæðisins frá 15. júní

14. júní 2017

Frá og með fimmtudeginum 15. júní nk. munu sérstök gjöld á reiki innan EES-svæðisins falla niður. Eftir að sú breyting tekur gildi munu neytendur frá þeim löndum sem tilheyra svæðinu borga það sama fyrir símanotkun og gagnamagn á ferðalögum innan EES-svæðisins og þeir greiða heima.

Þetta er samkvæmt reglugerð ESB sem tekin hefur verið inn í EES-samninginn og innleidd hér á landi. Í reglugerðinni eru sett ákvæði um sanngjörn hámarksnot á reikiþjónustu miðað við venjuleg ferðalög, svokölluð “fair use” ákvæði. Heimilt verður að leggja álag á notkun sem er umfram það sem telst til sanngjarnrar notkunar, svo sem þegar dvalið er langdvölum eða flust til annars ríkis á svæðinu.

Hvað varðar símtöl og SMS skeyti gildir heimaverðskrá um alla notkun. Sama verðskrá gildir í reiki og gildir um notkun innanlands. Innifaldar mínútur og innifalin SMS eru þar meðtalin, einnig ef viðkomandi áskrift býður ótakmarkaðar mínútur og/eða SMS skeyti.

Hvað gagnamagn varðar þá gilda reglur um sanngjörn not þar sem símafyrirtækin hafa heimild til að setja mörk á hve mikið gagnamagn má nota samkvæmt innanlandskjörum. Ef slík mörk eru sett er símafyrirtækinu skylt að tilkynna notendum sínum hver slík mörk eru. Ákvæði reikireglnanna um „reikað sem heima“ setja skilyrði um lágmarksmörk sem eru rúm og eiga að duga fyrir alla venjulega netnotkun, tölvupóst, lestur vefsíðna og fréttaveitna. Ef farið er yfir þessi mörk er farsímafyrirtækinu heimilt að innheimta reikiálag sem nú nemur að hámarki 1.110,91 kr. fyrir hvert gígabæti notkunar.

Neytendum er bent á að kynna sér hvernig þessar nýju reglur um reiki innan EES-svæðisins eru útfærðar innan þeirrar þjónustuleiðar sem þeir eru áskrifendur að hjá þjónustuaðila sínum.

Sjá nánar á upplýsingasíðu okkar um reiki innan EES-landa frá og með 15. júní 2017 þar sem er að finna ýmsar algengar spurningar og svör við þeim

Neytendum er einnig bent á að kynna sér upplýsingar og góð ráð varðandi reiki í löndum utan EES-svæðisins hér.

 

 

 

 

Til baka