Hoppa yfir valmynd

Slökkt á örbylgjusendum fyrir sjónvarp á höfuðborgarsvæðinu í júní

Tungumál EN
Heim

Slökkt á örbylgjusendum fyrir sjónvarp á höfuðborgarsvæðinu í júní

1. júní 2017

Nú í júní mun Vodafone ljúka við að slökkva á MMDS örbylgjusendum sínum fyrir sjónvarp á höfuðborgarsvæðinu. Áður var félagið búið að slökkva á slíkum sendum sem voru í notkun á Suðurlandi og Suð-Vesturlandi. Þetta er gert í samræmi við stefnu og ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar varðandi notkun 2600 MHz tíðnisviðsins sem örbylgjusendarnir hafa notað.

Ástæða þessara breytinga er hin hraða tækniþróun sem hefur átt sér stað í fjarskiptum, en þörfin fyrir aukið tíðnisvið fyrir háhraðafarnetstækni hefur aukist verulega síðustu ár og fyrirséð er að sú þróun haldi áfram. Örbylgjusjónvarpssendar Vodafone hafa sent út á tíðnisviðinu 2600 MHz en það tíðnisvið er sérstaklega skilgreint innan Evrópu til notkunar fyrir háhraðafarnet. Þannig hefur MMDS örbylgjukerfið verið starfrækt hér á landi samkvæmt sérstakri undanþágu, enda hefur sú tegund sjónvarpsútsendinga yfir örbylgju sem Vodafone hefur boðið upp á ekki tíðkast í flestum löndum Evrópu. Þessi tækni býður ekki upp á þá kosti sem felast í myndmiðlun í gegnum háhraðanettenginu, þ.e. möguleika til gagnvirkni og aðgangs að hliðruðu dagskrárefni. 

Af þessum sökum hefur tíðniheimild félagsins fyrir notkun örbylgjusendanna frá árinu 2003 aðeins verið framlengd tímabundið á undanförnum árum.  Beiðni félagsins um framlengingu til ársins 2018 var síðan synjað í mars í fyrra þar sem þá var farið að undirbúa uppboð á þessu tíðnisviði fyrir háhraðafarnet sem haldið var nú í maí. PFS samþykkti þó framlagða áætlun Vodafone um að færa viðskiptavini sjónvarpsþjónustunnar yfir í stafræna sjónvarpsþjónustu á UHF tíðnisviðinu, með því skilyrði að yfirfærslunni skyldi vera lokið og útsendingum hætt á 2600 MHz tíðnisviðinu eigi síðar en 30. júní 2017. 

Samkvæmt tölum um útbreiðslu háhraðafarneta hafa nú nálægt 98% íbúa innan dreifingasvæðis örbylgjusjónvarpsþjónustunnar aðgang að háhraðaneti sem gefur kost á sjónvarpsþjónustu í gegnum internetið.  Einnig er hægt að taka á móti sjónvarpsútsendingum í gegnum UHF loftnet á nánast öllum heimilum innan sama dreifingarsvæðis. 

Samkvæmt þessum tölum má ætla að séu ekki margir notendur sem verða fyrir beinum neikvæðum afleiðingum af þessum breytingum, þótt vissulega þurfi sumir þeirra að gera ráðstafanir til að geta tekið við sjónvarpsútsendingum með öðrum hætti. Þjóðhagslegur ávinningur af því að geta viðhaldið hraða og gagnamagni í ört vaxandi háhraðafarnetum var þó talinn vega mun þyngra við ákvörðun um nýtingu tíðnisviðsins.

Vodafone hefur birt upplýsingar og áætlun um hvernig það ætlar að haga þessum breytingum á sérstakri upplýsingasíðu á vef sínum.

 

 

Til baka