Hoppa yfir valmynd

Engar staðfestar tilkynningar vegna netárásar hérlendis enn sem komið er

Tungumál EN
Heim

Engar staðfestar tilkynningar vegna netárásar hérlendis enn sem komið er

15. maí 2017

Nú kl. 10 á mánudagsmorgni hafa enn ekki borist neinar staðfestar tilkynningar um sýktar tölvur hérlendis af völdum yfirstandandi netárásar sem nær um allan heim. Tvær vísbendingar hafa þó borist en ekki er staðfest að um sýkingu af völdum WannaCry óværunnar sé að ræða.

Einnig hefur Netöryggissveitin CERT-ÍS fengið vísbendingar í gagnastraumum um fimm IP tölur hérlendis sem gætu hafa sýkst. Ábendingum hefur þegar verið komið á framfæri við ábyrgðaraðila um að hreinsa þær vélar.

Afar mikilvægt er að senda tilkynningu til Netöryggissveitarinnar CERT-ÍS ef grunur leikur á að tölva sé sýkt af þessari óværu. Allar upplýsingar um þann sem tilkynnir tilvik eru höndlaðar sem trúnaðarmál og ekki gefnar upp nema að fengnu samþykki viðkomandi.

Tilkynningar sendist á cert@cert.is eða á fax nr. 510-1509

 Þegar atvik eru tilkynnt er gott að senda eftirfarandi í sem ítarlegustu formi:

  • Tengiliðaupplýsingar - í það minnsta tölvupóstfang
  • Sem nákvæmust lýsing á því sem gerðist
  • Skrár með spillikóða eða lista af skrám sem vírusvörn finnur
  • Skjáskot af kúgunarbréfum með upplýsingum s.s. bitcoin greiðsluleiðbeiningum og sérstaklega bitcoin reikningi
  • Skjáskot af skráalista í windows explorer með skráaendingum sem óværan hefur breytt

Rétt er að vera áfram á varðbergi gagnvart WannaCry óværunni sem og öðrum sem eru einnig í umferð. Sjá upplýsingar og leiðbeiningar í tilkynningu á vef PFS í gær.

Einnig er rétt að benda á að fleiri vírusar en WannaCry óværan eru í umferð svo allir tölvu- og netnotendur ættu að vera á varðbergi og uppfæra stýrikerfi sín og vírusvarnir reglulega.

Birt verður önnur tilkynning um stöðu mála hér á vefnum seinni partinn í dag.

 

 

 

  

Til baka