Hoppa yfir valmynd

Ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins í máli Vodafone gegn PFS

Tungumál EN
Heim

Ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins í máli Vodafone gegn PFS

29. desember 2016

Fimmtudaginn 22. desember sl. birti EFTA-dómstóllinn ráðgefandi álit sitt í máli Vodafone gegn PFS vegna smáskilaboðaþjónustu félagsins á vefsvæði þess.

Málið á rætur sínar að rekja til öryggisatviks er varð á vefsvæði Vodafone í nóvember 2013 þegar brotist var inn á vefsvæði félagsins, gögnum viðskiptavina þess stolið og þau birt á internetinu.

Við upphaf rannsóknar PFS á öryggisatvikinu andmælti Vodafone því að vefsvæði félagsins félli undir fjarskiptalög. PFS tók sérstaka ákvörðun, nr. 1/2014, þar sem kveðið var á um afmörkun gildissviðs fjarskiptalaga vegna vefsvæðis Vodafone. Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að hugbúnaður á vefsvæði Vodafone sem framkvæmdi sendingu skilaboða teldist vera fjarskiptanet í skilningi fjarskiptalaga nr. 81/2003, smáskilaboðaþjónustan teldist vera fjarskiptaþjónusta í skilningi laganna og vefsvæðið væri því hluti af almennu fjarskiptaneti félagsins.

Vodafone kærði ákvörðun stofnunarinnar til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála sem staðfesti ákvörðunina, sbr. úrskurð í máli nr. 3/2014. Vodafone lagði þá fram stefnu í héraðsdómi Reykjavíkur þar sem farið er fram á ógildingu úrskurðarins. Héraðsdómur leitaði eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í málinu og óskaði eftir túlkun dómstólsins á þremur framangreindum hugtökum, þ.e. rafrænu fjarskiptaneti, rafrænni fjarskiptaþjónustu og almennu fjarskiptaneti, sem finna má í 2. gr. rammatilskipunar Evrópusambandsins á sviði fjarskipta nr. 2002/21/EB, sem ákvæði fjarksiptalaga byggja á, m.t.t. virkni hugbúnaðar á vefsvæði Vodafone og þeirrar þjónustu sem þar var veitt.

Í áliti sínu kemst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að hugbúnaðurinn á vefsvæði Vodafone, sem framkvæmir sendingu skilaboða, teljist vera rafrænt fjarskiptanet í skilningi tilskipunarinnar.

Í öðru lagi tilgreinir dómstóllinn að tvö af þremur skilyrðum skilgreiningarákvæðis um rafræna fjarskiptaþjónustu séu uppfyllt, þ.e. að þjónustan felist í miðlun merkja og að ekki sé um ritstýringu af hálfu Vodafone að ræða á því efni sem sent er á fjarskiptanetinu. Það sé þó fyrir héraðsdóm að meta hvort að þriðja skilyrði ákvæðisins, um að þóknun sé að jafnaði tekin fyrir þjónustuna, sé uppfyllt í málinu.

Í þriðja lagi tilgreinir EFTA-dómstóllinn að það sé fyrir héraðsdóm að meta hvort tvö skilyrði skilgreiningarákvæðis tilskipunarinnar um almennt fjarskiptanet séu uppfyllt, þ.e. hvort fjarskiptanetið sé að öllu eða mestu leyti notað til að veita fjarskiptaþjónustu og hvort að sú þjónusta sé opin almenningi. Dómstóllinn tilgreinir þó í áliti sínu, er varðar fyrra skilyrðið, að sú smáskilaboðaþjónusta sem veitt var á vefsvæði Vodafone hafi verði grundvallarþjónusta vefsvæðisins. Hvað varðar síðara skilyrðið setur dómstóllinn fram það álit sitt að séu ekki takmarkanir á því hver geti orðið viðskiptavinur Vodafone þá verði þjónustan að teljast opin almenningi. Séu hins vegar slíkar takmarkanir fyrir hendi verði héraðsdómur að meta hvort þjónustan teljist samt sem áður vera opin almenningi.

Að fengnu þessu áliti EFTA-dómstólsins hefst málsmeðferð héraðsdóms Reykjavíkur á málinu á ný enda er það héraðsdóms að heimfæra málsatvik á ákvæði fjarskiptalaga og komast að efnislegri niðurstöðu í málinu.

Sjá álitið í heild á vef EFTA-dómstólsins (PDF skjal)

Vefur EFTA-dómstólsins

 

 

 

 

 

Til baka