Hoppa yfir valmynd

Ísland í 2. sæti á heimsvísu í upplýsingatækni og fjarskiptum skv. skýrslu Alþjóðafjarskiptasambandsins.

Tungumál EN
Heim

Ísland í 2. sæti á heimsvísu í upplýsingatækni og fjarskiptum skv. skýrslu Alþjóðafjarskiptasambandsins.

19. desember 2016

Alþjóðafjarskiptasambandið, ITU, á rætur sínar að rekja til þess þegar fjarskipti hófust yfir lengri vegalengdir og milli landa. Sambandið hélt upp á 150 ára afmæli sitt á síðasta ári, en frá 1947 hefur það verið ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Póst- og fjarskiptastofnun er aðili að ITU fyrir Íslands hönd.

Eitt af hlutverkum Alþjóðafjarskiptasambandsins er að fylgjast með stöðu og þróun fjarskipta í ríkjum heims. Frá 2009 hefur verið gefin út árleg skýrsla þar sem metin er staða upplýsingasamfélagsins í ríkjum heims. Nýjasta skýrslan, Measuring the Information Society Report kom út þann 22. nóvember sl. Þar er ríkjum raðað á lista eftir einkunnum og niðurstöðum skv. mælikvörðum sem notaðir eru til að mæla stöðu og þróun upplýsingasamfélagsins. Einnig er birtur listi með heildareinkunnum ríkja, svokallaður IDI listi (ICT Development Index). Þar er 175 ríkjum um allan heim raðað í einkunnaröð og borið er saman við niðurstöður frá síðasta ári.

Ísland er nú næst efst á þessum heildareinkunnalista, hefur skotist upp fyrir Danmörku sem nú er komin úr öðru í þriðja sætið. Efst á listanum er Suður-Kórea eins og áður.

Heildarniðurstöðurnar sýna stöðuga þróun upplýsingasamfélagsins í öllum löndunum á listanum, en mikill munur er þó bæði milli ríkja og svæða í heiminum.

Á vefsvæði Alþjóðafjarskiptasambandsins um skýrsluna er með aðgengilegum hætti hægt að nálgast skýrsluna í heild, skoða niðurstöður fyrir hvert land fyrir sig, og bera saman lönd og mismunandi svæði heimsins.  T.d. er hægt að velja einstök lönd og fá upplýsingasíðu með öllum niðurstöðum þess lands. Sjá t.d upplýsingasíðuna fyrir Ísland.

Hér fyrir neðan má sjá 20 efstu löndin á heildareinkunnalistanum og eins og sjá má eru Norðurlöndin öll þar á meðal.

 

 

Til baka