Hoppa yfir valmynd

Kallað eftir samráði um endurskoðun gjaldskrár Mílu fyrir bitastraumsþjónustu

Tungumál EN
Heim

Kallað eftir samráði um endurskoðun gjaldskrár Mílu fyrir bitastraumsþjónustu

14. desember 2016

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið yfirferð á kostnaðargreiningu Mílu ehf. á bitastraumsþjónustu fyrirtækisins. Þær vörur sem umrædd greining Mílu fjallar um tilheyra heildsölumarkaði fyrir bitastraumsaðgang sem er markaður nr. 5 samkvæmt tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá árinu 2008.

Meðfylgjandi drög að ákvörðun byggja á ákvörðun PFS nr. 21/2014 um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum heimtauga og bitastraums.

Samkvæmt drögunum hyggst PFS samþykkja kostnaðargreiningu Mílu með þeim breytingum sem gerðar voru við meðferð greiningarinnar hjá stofnuninni. Fyrirhuguð gjaldskrá Mílu nær til xDSL þjónustu fyrirtækisins á aðgangsleið 1 og 3, auk gjaldskrár fyrir opinn sýndaraðgang (VULA). Verðlagning á aðgangsleið 2 verður samkvæmt gjaldskrá Mílu fyrir Ethernetþjónustu og mun stofnnet Mílu selja þessa þjónustu beint til viðskiptavina. Að auki greiða viðskiptavinir fyrir tengingu við endanotanda samkvæmt verðskrá fyrir aðgangsleið 1.

Í samræmi við fyrirhugaða breytingu á gjaldskrá Mílu fyrir aðgang að koparheimtaugum verður leiga á efra tíðnisviði heimtaugar ekki lengur innifalin í mánaðarverðum fyrir ADSL/VDSL bitastraumstengingar. Hins vegar mun aðgangur að heildsöluskiptum nú verða innifalinn í mánaðarverðum á xDSL þjónustu Mílu í samræmi við fyrrnefnda ákvörðun nr. 21/2014. Fyrirhuguð mánaðarverð ADSL og VDSL tenginga á aðgangsleið 1 verða 728 kr. og 1.203 kr. á aðgangsleið 3, en núverandi mánaðarverð þessarar þjónustu eru 912 kr. á aðgangsleið 1 og 1.367 kr. á aðgangsleið 3. Í viðauka I við ákvörðunardrögin hér fyrir neðan er gjaldskráin fyrir bitastraumsþjónustu Mílu í heild sinni.

Hér með er fjarskiptafyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum gefinn kostur á að gera athugasemdir vegna þeirra draga sem hér liggja fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í þá liði sem um ræðir. Þegar stofnunin hefur metið framkomnar athugasemdir og gert þær breytingar á frumdrögunum sem hún telur nauðsynlegar verða drögin send til ESA til samráðs áður en endanleg ákvörðun verður tekin.

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 9. janúar nk.

Nánari upplýsingar veitir Hulda Ástþórsdóttir (netfang: hulda(hjá)pfs.is). PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni.

 

Drög að ákvörðun PFS um endurskoðun á heildsölugjaldskrá Mílu fyrir bitastraumsaðgang. (Markaður 5/2008)

Viðauki I við ákvörðunardrögin - Gjaldskrá fyrir bitastraumsþjónustu Mílu í heild

 

 

Til baka