Hoppa yfir valmynd

Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar um að hafna forsendum og niðurstöðu Íslandspósts á alþjónustubyrði fyrirtækisins

Tungumál EN
Heim

Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar um að hafna forsendum og niðurstöðu Íslandspósts á alþjónustubyrði fyrirtækisins

28. október 2016

Með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 17/2015, hafnaði stofnunin forsendum og niðurstöðu Íslandspósts (ÍSP) vegna mats á alþjónustubyrði félagsins sem tilheyra ætti kostnaðargrunni einkaréttar, en fyrirtækið hélt því fram að á árinu 2013 hefði alþjónustubyrði félagsins numið 1.191 milljón kr.

ÍSP kærði ákvörðun stofnunarinnar til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Nefndin hefur nú með úrskurði nr. 7/2015, dags. 19. október 2016, staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 17/2015. 

Í niðurstöðu nefndarinnar er því hafnað að ákvörðun stofnunarinnar hafi ekki verið í samræmi við lög um póstþjónustu, nr. 19/2002, einkum 6. mgr. 16. gr. laganna, stjórnsýslulög, nr. 19/1993 eða almennar reglur stjórnsýsluréttarins. 

Um lagastoð hinnar kærðu ákvörðunar 
Taldi nefndin m.a. ljóst að í lögum væri ekki að finna skýrar leiðbeiningar um hvernig reikna skuli út fjárhæð kostnaðar vegna alþjónustubyrði. Í lögum er þannig ekki fjallað um þær aðferðir og/eða forsendur sem almennt skal styðjast við, við mat á alþjónustubyrði og ráðast þær því í grunninn af ákvæði 6. mgr. 16. gr. Verður því að líta til þess hvort lögmæt og málefnaleg sjónarmið búi að baki þeim forsendum sem PFS mælir fyrir um að kærandi skuli styðjast við í hinni kærðu ákvörðun. Taldi nefndin því málefnalegt og eðlilegt og í samræmi við 6. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu að gera kröfu um að ÍSP tæki tillit til brottfallinna tekna og tekjuminnkunar sem kunni að fylgja því að leggja niður eða breyta þeirri þjónustu sem kærandi veitir á grundvelli alþjónustukvaðar. Fram kemur í niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar að um alþjónustubyrði sé að ræða þegar álagning alþjónustukvaða á póstrekanda um að veita tilteknum notendum póstþjónustu eða veita hana á tilteknum svæðum leiðir til taps sem ekki myndi skapast ef almenn viðskiptasjónarmið yrðu lögð til grundvallar. ÍSP hafði hins vegar talið að skilgreina verði alþjónustubyrði sem þann kostnað sem sparist við að fella niður þjónustuna, sem veitt er á grundvelli alþjónustukvaðar, eða breyta henni. 

Einnig var vísað til ákvörðunar PFS nr. 18/2013 sem taka yrði tillit til við útreikninga á alþjónustubyrði. Jafnframt tiltók nefndin að það væri ÍSP að sýna fram á hver alþjónustubyrði félagsins væri og að mat félagsins væri í framhaldinu lagt fyrir PFS til staðfestingar. 

Um mat kæranda á alþjónustubyrði og kostnaður
Að mati nefndarinnar felst í hinni kærðu ákvörðun að mat kæranda á alþjónustubyrði sé byggt á röngum forsendum og hafi ekki verið í samræmi við ákvörðunarorð 9. tl. ákvörðunar PFS nr. 18/2013, þar sem ekki hafi verið tekið tillit til tiltekinna þátta við matið í samræmi við leiðbeiningar PFS í ákvörðuninni. Í ljósi þess gerði nefndin ekki athugasemdir við þær forsendur sem gerð er krafa um að liggi til grundvallar við mat á alþjónustubyrði í hinni kærðu ákvörðun. 

Um rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins 
Í ákvörðun PFS nr. 18/2013 gerði stofnunin grein fyrir þeim aðferðum sem ÍSP bæri að styðjast við, við mat á alþjónustubyrði. Jafnframt sendi PFS til ÍSP hinn 17. júlí 2014, frummat stofnunarinnar og tiltekur nefndin að ÍSP hafi haft tækifæri til þess að endurbæta mat sitt, með hliðsjón af frummati PFS. Með vísan til þess taldi nefndin ekki tilefni til þess að telja að PFS hafi brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga með meðferð málsins. 

Staðfesti nefndin því niðurstöðu og forsendur ákvörðunar PFS. 

Niðurstaða nefndarinnar breytir ekki núverandi forsendum og niðurstöðu bókhaldslegs aðskilnaðar félagsins, eins og gerður var fyrirvari um í yfirlýsingu PFS þann 4. mars 2016. 

Sjá úrskurð úrskurðarnefndarinnar í heild:
Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta og póstmála nr. 7/2015 (pdf)

 

Til baka