Hoppa yfir valmynd

PFS hefur ákvarðað ný heildsöluverð fyrir lúkningu símtala í farsímanetum

Tungumál EN
Heim

PFS hefur ákvarðað ný heildsöluverð fyrir lúkningu símtala í farsímanetum

17. október 2016

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 14/2016 um heildsölugjaldskrá fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum á heildsölumarkaði. Mælt er fyrir um að niðurstaða verðsamanburðar sem stofnunin hefur framkvæmt verði grundvöllur hámarks lúkningarverða Símans, Vodafone, Nova, IMC/Alterna og 365 á árinu 2017. Samkvæmt framangreindum verðsamanburði skal hámarksverðið lækka í 1,23 kr./mín um næstu áramót. Framkvæmd og niðurstöðu verðsamanburðarins er nánar lýst í ákvörðuninni.

Núverandi lúkningarverð, sem gildir á árinu 2016, var ákvarðað með ákvörðun PFS nr. 28/2015 frá 30. október 2015 en þá kvað stofnunin á um að lúkningarverð skyldu lækkuð úr 1,52 kr./mín. í 1,40 kr./mín., frá og með 1. janúar 2016.

Ákvörðun þessi byggir á ákvörðun PFS nr. 20/2015 um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum. 

Samkvæmt ákvörðun PFS nr. 20/2015 skal stofnunin beita verðsamanburði til að ákvarða hámarks lúkningarverð íslenskra farsímafyrirtækja eins og gert hefur verið síðustu ár. Niðurstaðan skal byggjast á meðalverði þeirra EES-ríkja sem beita þeirri aðferðarfræði við kostnaðargreiningu sem lýst er í framangreindri ákvörðun og nánari grein er gerð fyrir í þessari ákvörðun sem hér er birt.

Sjá ákvörðunina í heild ásamt viðaukum:

Ákvörðun PFS nr. 14/2016 -  Heildsölugjaldskrá fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum

Viðauki I - Gengistafla

Viðauki II - Álit Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA)

 

 

Til baka