Hoppa yfir valmynd

Samráð um skilmála uppboðs á tíðniheimildum fyrir háhraða farnetsþjónustu

Tungumál EN
Heim

Samráð um skilmála uppboðs á tíðniheimildum fyrir háhraða farnetsþjónustu

11. október 2016

Frá því að tíðniheimildum til að veita þriðju kynslóðar farsímþjónustu (3G) var úthlutað á árinu 2007 hefur gagnamagn í farnetum margfaldast. Með tilkomu fjórðu kynslóðar farnetsþjónustu á árinu 2013 jókst framboð á ýmiss konar þjónustutegundum sem krefjast mikillar bandvíddar, s.s. myndmiðlun og skráarskipti af ýmsu tagi. Á síðustu árum hefur notkun á ýmsum smáforritum í snjallsímum einnig farið vaxandi, auk þess sem vinsælir samskiptamiðlar hafa verið gerðir aðgengilegri fyrir snjallsíma.

Vegna þessarar miklu aukningar á gagnanotkun í farnetum og fyrirsjáanlegrar þróunar á næstu árum er orðin aðkallandi þörf fyrir að taka frekari tíðnisvið til notkunar fyrir 4G farnetsþjónustu. Í tilefni af umsókn frá Símanum hf. um að fá úthlutun á tíðnum á 700 MHz tíðnisviðinu, efndi Póst- og fjarskiptastofnun til samráðs við markaðsaðila í mars sl., m.a. í þeim tilgangi að kanna eftirspurn meðal þeirra eftir viðbótartíðnum fyrir farnetsþjónustur. Samráðið leiddi í ljós að flestir markaðsaðilar töldu þörf á viðbótartíðnum og því ljóst að eftirspurn væri a.m.k. jafn mikil og framboð, hvað varðar 700 MHz og 2100 MHz tíðnisviðin. Markaðsaðilar voru flestir einnig á þeirri skoðun, ásamt Póst- og fjarskiptastofnun, að taka skyldi 2600 MHz tíðnisviðið til notkunar fyrir farnetsþjónustu.

Niðurstaða samráðsins var því sú að PFS myndi, að fengnu samþykki ráðherra sem nú liggur fyrir, efna til uppboðs á tíðniheimildum á 700, 2100 og 2600 MHz tíðnisviðunum.

Í töflunni hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir þær tíðniheimildir og helstu upplýsingar um forsendur og skilyrði sem tengjast uppboðinu:

Númer  Stærð   Tíðnisvið Þjónusta  Svæði Gildistími  Lágmarksboð   Útbreiðslukröfur
 A 700    2x10 MHz   703-713 / 758-768 MHz  Farnet  Landið allt  15 ár  35 milljónir kr.  Já
B 700  2x10 MHz 713-723 / 768-778 MHz   Farnet  Landið allt  15 ár  35 milljónir kr.  
C 700   2x10 MHz 723-733 / 778-788 MHz  Farnet  Landið allt  15 ár  35 milljónir kr.  
D 2100  2x5 MHz 1935 - 1940 / 2125 - 2130 MHz    Farnet  Landið allt  5 ár  5,5 milljónir kr.  Nei
 E 2100  2x5 MHz 1970 - 1975 / 2160 - 2165 MHz   Farnet  Landið allt  5 ár  5,5 milljónir kr.  Nei
 F 2100  2x5 MHz  1975 - 1980 / 2165 - 2170 MHz  Farnet  Landið allt  5 ár 5,5 milljónir kr.   Nei
 G 2600  2x20 MHz 2500 - 2520 / 2620 - 2640 MHz   Farnet  Landið allt  10 ár  10 milljónir kr.  Nei
 H 2600  2x20 MHz 2520 - 2540 / 2640 - 2660 MHz   Farnet  Landið allt  10 ár  10 milljónir kr.  Nei
I 2600  2x10 MHz 2540 - 2550 / 2660 - 2670 MHz   Farnet  Landið allt  10 ár  5 milljónir kr.  Nei
 J 2600  2x10 MHz  2550 - 2560 /2670 - 2680 MHz  Farnet  Landið allt  10 ár  5 milljónir kr.  Nei
 K 2600  2x10 MHz  2560 - 2570 / 2680 - 2690 MHz  Farnet  Landið allt  10 ár  5 milljónir kr.  Nei

 

Nánar er fjallað um réttindi og skyldur sem fylgja tíðniheimildunum, skilmála og framkvæmd uppboðsins í drögum að uppboðskilmálum sem finna má hér fyrir neðan ásamt tilheyrandi fylgiskjölum.

Stefnt er að því að uppboðið fari fram fyrir lok þessa árs.

PFS kallar hér með eftir samráði við hagsmunaðila um efni uppboðsskilmálanna.

Frestur til að skila athugsemdum við fyrirhugaða uppboðsskilmála er veittur til 1. nóvember nk. Umsagnir og athugasemdir skulu sendar Sigurjóni Ingvasyni á netfangið sigurjon(hjá)pfs.is.

Sjá nánar í samráðsskjölum:

 

 

Til baka