Hoppa yfir valmynd

Nethlutleysi - reglugerð ESB og leiðbeiningar um framkvæmd

Tungumál EN
Heim

Nethlutleysi - reglugerð ESB og leiðbeiningar um framkvæmd

30. ágúst 2016

BEREC, samstarfsvettvangur evrópskra fjarskiptaeftirlitsstofnana kynnti í dag leiðbeiningar um framkvæmd og meðferð nýrrar reglugerðar ESB um nethlutleysi (e. net neutrality). Reglugerðin tók gildi innan Evrópsambandsins þann 30. apríl sl., en hefur verið tekin upp í EES-samninginn og tekur gildi hér á landi þegar gerðar hafa verið viðeigandi breytingar á lögum.

Reglugerðin um nethlutleysi festir í sessi regluna um opið internet fyrir alla. Þetta þýðir að netaðgangsveitendur skulu stýra umferð gagna um internetið þannig að allir fái jafna þjónustu, án forgangsröðunar, án tillits til innihalds eða þjónustutegundar og án tillits til þess búnaðar sem notaður er. Sérstaklega er hugað að réttindum endanotenda, þ.e. hins almenna notanda. 

Auk þess að tryggja jafnræði er í reglugerðinni lögð áhersla á gegnsæi gagnvart endanotendum. M.a. er þeim aðilum sem veita netaðgang gert skylt að upplýsa notendur sína um þau hraðaviðmið í gagnaflutningi um internetið sem notandinn getur gert ráð fyrir. Auk þess hraða sem auglýstur er þarf netþjónustuaðili á fastanetum m.a. að upplýsa hvern notanda sinn um:

  • Hámarkshraða, þ.e. mesta hraða sem notandinn getur búast við, og skal hann nást a.m.k. einu sinni á dag
  • Venjulegan hraða, þ.e. þann hraða sem notandinn getur búist við undir venjulegum kringumstæðum. Þá er bæði litið til hraðans sjálfs og þess tíma sem hann er til staðar
  • Lágmarkshraða, þ.e. þann hraða sem þjónustuaðilinn lofar að ekki verði farið niður fyrir

Leiðbeiningar BEREC til eftirlitsstofnananna fjalla einnig ítarlega um þætti eins og heildstæði neta og stýringu umferðar þegar um yfirálag er að ræða.

Með þessum leiðbeiningum hafa fjarskiptaeftirlitsstofnanir á EES-svæðinu fengið í hendur samræmda leiðsögn um eftirlit, framfylgni og opinbera upplýsingagjöf varðandi málefni sem falla undir reglugerðina um nethlutleysi og við úrlausn einstakra mála. Leiðbeiningarnar munu einnig nýtast markaðsaðilum til að skipuleggja starfsemi sína varðandi nethlutleysi í samræmi við þær kvaðir sem umrædd reglugerð hefur sett á fjarskiptafyrirtæki á EES-svæðinu.

Eins og áður er nefnt tók reglugerðin um nethlutleysi gildi í Evrópusambandinu þann 30. apríl sl. og hefur nú þegar verið tekin upp í EES-samninginn. Hún mun taka gildi hér á landi þegar Alþingi hefur gert viðeigandi breytingar á lögum um fjarskipti.

Sérstök upplýsingasíða um nethlutleysi hefur verið sett upp hér á vefnum þar sem hægt er að kynna sér hvað í reglugerðinni og leiðbeiningum um meðferð hennar felst.

Sjá einnig ítarlegar upplýsingar um leiðbeiningarnar varðandi reglugerðina um nethlutleysi á heimasíðu BEREC.

 

 

Til baka