Hoppa yfir valmynd

Nýtt viðmiðunartilboð Mílu fyrir heildsöluaðgang að heimtaugum tekur gildi í dag

Tungumál EN
Heim

Nýtt viðmiðunartilboð Mílu fyrir heildsöluaðgang að heimtaugum tekur gildi í dag

9. ágúst 2016

Með ákvörðun sinni nr. 9/2016 frá því í dag samþykkir Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) að nýtt viðmiðunartilboð Mílu ehf. fyrir heildsöluaðgang að heimtaugum taki nú þegar gildi. Meðal helstu nýmæla er að hið nýja viðmiðunartilboð tekur jafnt til koparheimtauga sem ljósleiðaraheimtauga, en áður gildandi viðmiðunartilboð tók aðeins til koparheimtauga, auk þess að hafa að geyma ákvæði um gæðaviðmiðunarsamninga og gæðatryggingar. Í því máli sem hér er til umfjöllunar eru skilmálar viðmiðunartilboðsins til meðferðar, aðrir en þeir er snúa að verðum. Um verðin er fjallað í öðru máli sem nú er til meðferðar hjá PFS. Endanlegrar niðurstöðu varðandi verðin er að vænta síðar á árinu.

Hið nýja viðmiðunartilboð leysir af hólmi eldra viðmiðunartilboð Mílu um sama efni sem að stofni til er frá árinu 2009. Ofangreind ákvörðun byggist á ákvörðun PFS nr. 21/2014 þar sem Míla var útnefnt sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir aðgang að heimtaugum, ásamt því sem viðeigandi kvaðir voru lagðar á félagið til að freista þess að leysa þau samkeppnisvandamál sem greind voru á markaðnum. Meðal kvaða var að Míla skyldi endurskoða viðmiðunartilboð sitt m.t.t. breyttra markaðsaðstæðna.

Ofangreind ákvörðun PFS nr. 21/2014, sem birt var þann 13. ágúst 2014, kvað á um að Míla skyldi afhenda PFS nýtt viðmiðunartilboð eigi síðar en 13. febrúar 2015. Þrátt fyrir eftirgangsmuni af hálfu PFS afhenti félagið stofnuninni ekki drög að nýju viðmiðunartilboði fyrr en 9. október 2015, eða tæpum 8 mánuðum eftir lok umrædds frests. PFS gerði svo tillögur að breytingum á tilteknum ákvæðum viðmiðunartilboðsdraganna og efndi til innanlandssamráðs meðal markaðsaðila þann 2. febrúar sl. Drög að ákvörðun PFS voru svo send Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) til samráðs þann 7. júlí sl. Þann 29. júlí sl. barst PFS álit ESA. Gagnrýnir ESA m.a. þær miklu tafir sem orðið hafa frá því að fyrrgreind ákvörðun PFS nr. 21/2014 tók gildi þar til hið uppfærða viðmiðunartilboð tekur gildi. Telur ESA að slíkar tafir skerði réttaröryggi markaðsaðila og fyrirsjáanleika markaðarins, sem m.a. getur hamlað fjárfestingum og nýsköpun á fjarskiptamarkaði.

Ákvörðun PFS nr. 9/2016 - Viðmiðunartilboð Mílu fyrir heildsöluaðgang að heimtaugum

Viðauki 1: Fyrirmæli um breytingar

Viðauki 2: Álit Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA)

 

 

 

Til baka