Hoppa yfir valmynd

Skilmálabreyting um takmörkun á tíðnisamstarfi Nova og Vodafone

Tungumál EN
Heim

Skilmálabreyting um takmörkun á tíðnisamstarfi Nova og Vodafone

8. júlí 2016

Póst- og fjarskiptastofnun hefur borist samkomulag milli Nova ehf. og Fjarskipta hf. (Vodafone) um takmörkun á tíðnisamstarfi félaganna, dags. 7. júní 2016, sem heimilað var með ákvörðun stofnunarinnar nr. 14/2014, sbr. og sömuleiðis, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 14/2015.

Fram kemur að umfang samstarfs félaganna hafi ekki orðið jafnmikið og áætlanir gerðu ráð fyrir og ekki séu fyrirséðar breytingar á því í nánustu framtíð. Til að mynda hafi félögin gengið mun skemur í að samnýta tíðnir heldur en til stóð. Í dag sé samnýting óveruleg og eigi sér aðallega stað í strjálbýli til að ná hagkvæmari útbreiðslu þjónustunnar. Að mati Nova ehf. og Vodafone sé mikilvægt að heimild til samstarfs endurspegli raunverulegt umfang þess eins og það hefur mótast í framkvæmd.

Það er álit Póst- og fjarskiptastofnunar að ekki sé heppilegt, með tilliti til fyrirsjáanleika á markaði, að heimild til tíðnisamstarfs sé mun víðtækara heldur en það hefur orðið í framkvæmd og er líklegt til að verða um fyrirséða framtíð. Póst- og fjarskiptastofnun hefur því ákveðið, með vísan til b.-liðar 1. mgr. 10. gr., sbr. og 1. mgr. 12. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003, að takamarka heimilaða tíðnisamnýtingu félaganna tveggja. Verður það gert með skilmálabreytingu í viðeigandi tíðniheimildum félaganna, þ.e. á 800, 900, 1800 og 2100 MHz tíðnisviðunum, sem orðast svo:

„Í þeim tilgangi að stuðla að hagkvæmri uppbygginu háhraðanetsþjónustu er Nova/Vodafone heimilt að samnýta tíðnir samkvæmt heimild þessari með tíðnum Nova/Vodafone, sem jafnframt er heimilt að samnýta, þannig að samnýtt burðarbylgja verði að hámarki samtals 20 MHz.“

Í samræmi við 3. mgr. 12. gr. fjarskiptalaga eru fyrirhugaðar breytingar kynntar hagsmunaaðilum og taka þær gildi þann 15. ágúst 2016. Komi til þess síðar að félögin óski eftir rýmkun á heimild til samnýtingar, umfram þá heimild sem tekur gildi 15. ágúst nk., skulu félögin senda Póst- og fjarskiptastofnun beiðni þar að lútandi sem afgreidd verður í sérstöku stjórnsýslumáli að undangengnu samráði við hagsmunaaðila.

Til baka