Hoppa yfir valmynd

PFS efnir til afmarkaðs aukasamráðs um breytta uppbyggingu á gjaldskrá Mílu fyrir aðgang að koparheimtaugum

Tungumál EN
Heim

PFS efnir til afmarkaðs aukasamráðs um breytta uppbyggingu á gjaldskrá Mílu fyrir aðgang að koparheimtaugum

26. apríl 2016

Þann 23. desember sl. efndi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til samráðs um drög að ákvörðun varðandi kostnaðargreiningu Mílu ehf. fyrir aðgang að koparheimtaugum fyrirtækisins.
Drögin byggðu á niðurstöðu útreikninga á mánaðargjöldum samkvæmt nýrri tilhögun í uppbyggingu á gjaldskrá sem PFS ákvarðaði með ákvörðun stofnunarinnar nr. 21/2014, dags. 13. ágúst 2014.

Vegna athugasemda frá markaðsaðilum og breyttum aðstæðum á markaðinum hyggst PFS gera breytingu á fyrirkomulagi gjaldskrár fyrir aðgang að koparheimtaugum. Markmið þessara breytinga er að einfalda gjaldskrána og horfa til þeirra breytinga sem væntanlegar eru á næstu árum í kjölfar fyrirhugaðrar niðurlagningu Símans hf. á PSTN kerfi sínu. Einnig ákvað Míla, í ljósi athugasemda í samráðinu, að falla frá hækkun stofngjalda sem boðaðar voru í upphaflegu drögunum.

Með hliðsjón af þeim breytingum sem PFS hyggst gera á gjaldskrá fyrir aðgang að koparheimtaugum telur stofnunin rétt að efna til aukasamráðs um þá kafla í frumdrögum PFS sem varða breytinguna á stofngjaldinu og mánaðargjöldum fyrir aðgang að koparheimtaugum. Aukasamráðið afmarkast við eftirfarandi kafla frumdraga PFS:

  • Kafli 2.5 Stofngjöld
  • Kafli 2.7 Línufjöldi
  • Kafli 2.8 Útreikningur leiguverðs
  • Kafli 2.9 Niðurstaða PFS

Meginbreytingin fellst í því að í stað mismunandi gjalda fyrir aðgang að heimtaug verður eitt aðgangsgjald, 1.444 kr. á mánuði, án vsk. Aðgangsgjaldið verður óháð því hvort notandi nýtir efra eða neðra tíðnisvið heimtaugarinnar og ekki verður gerður greinarmunur á gjaldi eftir því hvort heimtaugin endar í götuskáp eða símstöð. Samhliða þessu mun gjald fyrir efra tíðnisvið heimtaugar verða aðgreint frá verði fyrir bitastraumsaðgang Mílu.

Hér með er óskað viðbragða hlutaðeigandi aðila við framangreindum breytingum á frumdrögunum.
Athugasemdir skulu berast með pósti eða með tölvupósti til Póst- og fjarskiptastofnunar, stílaðar á Huldu Ástþórsdóttur (hulda(hjá)pfs.is) ekki síðar en þriðjudaginn 17. maí 2016.

 Sjá samráðsskjal:

Aukasamráð PFS um endurskoðun á heilsölugjaldskrá Mílu fyrir koparheimtaugar (markaður 4)

 

 

Til baka