Hoppa yfir valmynd

Beiðni Vodafone um endurnýjun á tíðniheimild fyrir MMDS sjónvarpsútsendingar synjað

Tungumál EN
Heim

Beiðni Vodafone um endurnýjun á tíðniheimild fyrir MMDS sjónvarpsútsendingar synjað

10. mars 2016

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur hafnað beiðni Fjarskipta hf. (Vodafone) um að endurnýja tíðniheimild félagsins á 2600 MHz tíðnisviðinu fyrir MMDS sjónvarpsútsendingar (Digital Ísland) til loka árs 2018. Hins vegar samþykkir PFS framlagða áætlun Vodafone um að færa viðskiptavini sjónvarpsþjónustunnar yfir í stafræna sjónvarpsþjónustu á UHF tíðnisviðinu, þó með þeirri breytingu að yfirfærslunni skuli vera lokið og útsendingum hætt á 2600 MHz tíðnisviðinu eigi síðar en 30. júní 2017.

Niðurstaða PFS byggir m.a. á því að mikil og hröð þróun hefur orðið á íslenskum fjarskiptamarkaði á undanförnum árum. Munar þar mestu um gífurlegan vöxt í háhraða farnetsþjónustu með tilkomu fjórðu kynslóðar farnetsþjónustu. Upplýsingar PFS um gagnamagn í farnetum sýna fram á allt að því tíföldun á sl. fimm árum og lítur út fyrir vöxturinn geti hæglega haldið áfram að tvöfaldast á milli ára.

Samhliða þessu hefur neyslumynstur neytenda á fjarskiptamarkaði tekið breytingum, en aukin ásókn er í gagnvirka þjónustu af ýmsu tagi. Þessi þróun kallar á að viðbótartíðnisvið séu tekin til notkunar fyrir háhraða farnetsþjónustu og hafa opin samráð sem PFS hefur efnt til um tíðnimál gefið til kynna áhuga fjarskiptafyrirtækja á að fá úthlutað tíðnum á 2600 MHz tíðnisviðinu fyrir háhraða farnetsþjónustu.

Við ákvarðanatöku sína horfði PFS jafnframt til skuldbindinga Íslands gagnvart Evrópu um samræmda notkun tíðnisviðsins, en samkvæmt samræmingarákvörðun framkvæmdastjórnar ESB nr. 2008/477/EB frá 13. júní 2008 skal 2600 MHz tíðnisviðið standa til boða fyrir háhraða farnetsþjónustu innan EES-svæðisins.

Með tilliti til þessa standa áform PFS um úthlutun á 2600 MHz tíðnisviðinu fyrir háhraða farnetsþjónustu síðar á þessu ári óbreytt, þó þannig að með samþykkt á yfirfærsluáætlun Vodafone mun nýtingu á tíðninni fyrir þá þjónustu seinka til 1. júlí 2017.

 

Ávörðun PFS nr. 1/2016 - Synjun endurúthlutunar á 2600 MHz tíðnisviðinu fyrir MMDS sjónvarpsútsendingar

 

Til baka